Skoðun

Við erum vinir

Bjarni Gíslason skrifar
Ég verð hreinlega að segja ykkur frá þeim hughrifum sem innplastað ljóð, sem hangir á handriði heitapotts í sundlaug Kópavogs, hefur vakið með mér undanfarið.

Ljóðið er eftir Alvar Orrason sem er í 5.-6. bekk í Klettaskóla: „Steingrímur er leiður en ég er glaður. Við erum vinir.“

Þetta er besta ljóð sem ég hef lesið lengi. Virðist einfalt en er mjög djúpt þegar grannt er skoðað. Fyrst er lýst tilfinningum og líðan sem greinilega getur verið upp og ofan eins og við flest þekkjum. Mér finnst líka felast í fyrrihlutanum að þó að þegar ljóðið er skrifað sé það Steingrímur sem er leiður og Alvar glaður, þá geti því síðar verið öfugt farið. Að við sveiflumst öll í tilfinningum og líðan. Það er heldur ekki verið að fela neitt, segjum hlutina eins og þeir eru. En þá kemur framhaldið sem skiptir öllu máli: „Við erum vinir.“

Hér er sett fram staðreynd sem stendur einhvern veginn sama hvað. Við erum vinir óháð tilfinningum og líðan, hún getur verið upp og ofan en við erum alltaf vinir. Það er grundvöllur sem stendur og verður til þess að sá sem þarf á stuðningi að halda fær hann frá vini sínum. Þá getur sá sem betur er staddur, staðið með vini sínum, hlustað og veitt styrk og stuðning. Stundum er besti stuðningurinn einfaldlega að vera vinur. Þegar sú staða kemur upp að báðum líður illa er vináttan styrkur sem veitir samstöðu, skilning og kraft til að halda áfram, ganga saman. Taka ábyrgð hvert á öðru.

Ljóðið segir ekki „stundum erum við vinir“ eða „þegar okkur líður vel erum við vinir“. Nei: „Við erum vinir.“ Það er snilldin. Það er einmitt það sem gefur von og möguleika, grundvöll til að halda áfram göngunni.

Þannig er Alvar okkur hinum góð fyrirmynd um að sýna hvert öðru stuðning. Horfa í kringum okkur, vera opin fyrir þeim sem þurfa stuðning, nær og fjær. Hver þarf þinn stuðning?

Takk Alvar fyrir ljóðið um sanna vináttu.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×