Skoðun

Að umbreyta leti í velsæld

Bjarni Þorsteinsson skrifar
Árið 2012 kom út skýrsla á vegum McKinsey & Company um íslenska hagkerfið þar sem fram kemur að framleiðni vinnuafls hér á landi sé 20% lægri en í nágrannaríkjum. Þótt ótrúlegt megi virðast vöktu þessar niðurstöður takmarkaða athygli á sínum tíma; kannski þótti fólki þetta óþægilegar tölur, þarna var Ísland ekki meðal fremstu þjóða í því sem Íslendingar af einhverjum ástæðum tengja öðru fremur við sjálfsmynd sína: vinnusemi.

Á síðustu vikum og mánuðum hafa þessar framleiðnitölur þó óvænt skotið upp kollinum á ný og öðlast framhaldslíf; þær hafa verið dregnar inn í umræðuna um kjaramál, einkum af fulltrúum hinna svokölluðu Samtaka atvinnulífsins og hollvinum þeirra. Ýjað hefur verið að því og það jafnvel sagt beinum orðum að íslenskt vinnuafl sé aflminna en í nágrannalöndum, að íslenskt launafólk sé hreinlega latara. Það hefur verið látið liggja í loftinu að þessi meinta leti sé ástæðan fyrir því að flestallir íslenskir launamenn þurfi að gera sér að góðu mun lélegri laun en kollegar þeirra í nágrannalöndunum. Við verðskuldum ekki meira.

Það kann að vera að Íslendingar séu latir. Það getur líka vel verið að Norðmenn, Danir og Svíar séu latir. Kannski eru allir í grunninn latir ef út í það er farið. Íslenskir launamenn eru að jafnaði með jafnmarga útlimi og erlendir, líkamlegir burðir svipaðir og ekkert bendir til að við séum vitsmunalega verr útbúin en fólk í öðrum löndum. Það er m.ö.o. ekkert að íslensku vinnuafli, það er ekki skert á neinn hátt.

Tölurnar tala hins vegar sínu máli, við afköstum minna, framleiðum minna á hverjum degi. Það hlýtur þá að vera þannig að við vinnum vitlaust, eyðum tíma í óþarfa, gerum einfalda hluti flókna. Verkferlar flæktir, vinnuumhverfi óhentugt, kerfin gölluð, verklag ekki í lagi. Við erum í 20% rugli í vinnunni.

Lykillinn að velsældinni

Í sjálfu sér er þetta á vissan hátt gleðilegt því allt þetta er hægt að laga. Og ávinningurinn af því er ekkert smáræði, skjárinn á reiknivélinni minni nær ekki að rúma þá upphæð sem 20% framleiðniaukning færir þjóðarbúinu. Þetta er eiginlega ónotuð auðlind sem þarf bara að koma upp í nýtingarflokk. Ég er nokkuð viss um að íslenska vinnuaflið er til í að efla sig ef allur þessi ávinningur blasir við. En það er því miður ekki í höndum þeirra að framkvæma þá umbreytingu.

Þeir sem skipuleggja, stjórna og taka ákvarðanir eru þeir sem hafa verkfærin sem þarf í þessa leiðréttingu. Þessi hópur kallast í daglegu máli stjórnendur og millistjórnendur. Þeir halda á lyklinum að velsældinni. Þetta vekur upp ýmsar óþægilegar spurningar. Hvernig stendur á því að íslenskum stjórnendum hefur ekki tekist að vinna vinnu sína eins vel og kollegum þeirra í nágrannalöndunum? Og hvernig í ósköpunum stendur á því að þrátt fyrir þessa slöku frammistöðu hafa íslenskir stjórnendur og millistjórnendur fengið mestu kjarabæturnar á undanförnum misserum, margfalt meiri en almennir launamenn?

Nú þurfa íslenskir stjórnendur að sýna hvað í þeim býr, það er ekkert sem bendir til þess að þeir séu frá náttúrunnar hendi eitthvað verr úr garði gerðir en íslenskur almenningur. Brettið upp ermarnar á Boss-skyrtunum, sýnið að þið kunnið að nota verkfærin ykkar svo við getum skapað okkur betri kjör og aukna velsæld.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×