Skoðun

Álvertíð

Guðbjörg Óskarsdóttir skrifar
Fiskveiðar hafa sett á svip á íslenskt mannlíf um aldir. Við höfum á síðustu árum sótt æ fleiri tegundir í fiskimiðin og nýtum nú aflann betur og með fjölbreyttari hætti. Það hefur haft mikla verðmætasköpun í för með sér og lagt grunn að frekari rannsóknum og þróun.

Samkvæmt nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar um þjóðhagslega stöðu og þróun íslensks áliðnaðar er orkuáliðnaður annar grunnatvinnuvegur þjóðarinnar. Orkuáliðnaður byggir á álverum og öllum þeim ferlum, tækni, búnaði og þjónustu sem þau nýta. Þar kemur einnig fram að framlag álvera til vergrar landsframleiðslu (VLF) tæplega tvöfaldaðist á árunum 2007 til 2012. Stærð og umfang þessa atvinnuvegar á Íslandi vekur spurningu hvort hér séu sóknarfæri til aukinnar verðmætasköpunar fyrir íslenskt samfélag.

Reynslan hefur kennt okkur að þau fyrirtæki sem sérhæfa sig í lausnum og þjónustu við álverin hafa í kjölfarið getað markaðssett sínar lausnir erlendis með góðum árangri. Sem dæmi um þetta má nefna fyrirtæki á borð við Vélsmiðju Hjalta Einarssonar (VHE), sem auk þess að þjónusta álverin hér heima smíðar nú sérhæfðan vélbúnað fyrir áliðnað um allan heim. Þá hafa verkfræðistofur á borð við HRV og Eflu sinnt verkefnum víða um heim. Ef sjávarútvegur er áfram hafður til hliðsjónar þarf þessi árangur ekki að koma á óvart, enda hafa firnasterk þjónustu- og tæknifyrirtæki á borð við Marel, Völku og Marorku náð fótfestu á erlendum mörkuðum með sínar afurðir og lausnir.

Sprotar og nýsköpunarfyrirtæki hafa verið nefnd helsta von Íslands til að auka hagvöxt og velferð til framtíðar, samanber skýrslu McKinsey frá árinu 2012. Íslensk sprotafyrirtæki tengd áliðnaði njóta þess að hér eru boðleiðir stuttar og innlendur markaður stór, auk þess sem starfsemi allra álveranna þriggja teygir sig út fyrir landsteinana. Þannig má ætla að hagkvæmar og góðar lausnir geti fengið hljómgrunn erlendis. Þarna blasa því við spennandi tækifæri fyrir nýja sprota sem og starfandi fyrirtæki á þessu sviði.

Ýmislegt hefur verið gert til þess að undirbúa jarðveginn og styðja við nýsköpun tengda áliðnaði. Í því sambandi má nefna að Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur sett á laggirnar þróunarsetur í efnistækni þar sem sérstaklega er hugað að tækjabúnaði og sérfræðiþekkingu á sviði efnistækni áls og kísilmálms. Þá stóðu Samál og Samtök iðnaðarins síðastliðið haust fyrir stefnumóti um þarfir og lausnir á sviði áliðnaðar. Síðast en ekki síst hefur verið unnið að stofnun álklasa. Þessi vinna hefur verið unnin af fjölmörgum fyrirtækjum sem starfa á þessu sviði auk háskóla og stofnana sem hafa áhuga á framþróun og rannsóknum tengdum áliðnaði og álvinnslu. Hlutverk álklasans er að vera vettvangur umræðu og samstarfs um málefni sem hæst ber hverju sinni. Má þar nefna menntamál, nýsköpun, öryggismál, sókn á erlenda markaði og umhverfismál.

Stefnt er að formlegum stofnfundi álklasans í júní og verður dagskrá og tímasetning auglýst síðar. Allir þeir sem hafa áhuga á nýsköpun og tækniþróun tengdri áliðnaði eru hvattir til þess að kynna sér klasann og huga að þátttöku hvort sem um ræðir verkfræðilega ferla, hönnun, upplýsingatækni, sérhæfðan tækjabúnað, umhverfislausnir eða eitthvað allt annað.

Nú er spurning hvort réttu veiðarfærin séu um borð og hvort kraftur og þor séu til staðar til þess að leita á ný mið.




Skoðun

Sjá meira


×