Skoðun

Evrópusambandið er friðarverkefni

Federica Mogher skrifar
Þann 9. maí 1950 hvatti Robert Schuman þjóðir Evrópu til að taka höndum saman og gera stríð óhugsandi í heimsálfunni okkar. Bæn hans um frið og samheldni er jafn brýn nú, að 65 árum liðnum, og hún var þá.

Ákall Schumans um að leysa aldagamlar erjur aðeins fimm árum eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk lagði grunninn að því sem nú heitir Evrópusambandið. Í áranna rás hefur sambandið okkar stækkað úr sex ríkjum í 28 ríki og er nú helsta friðarverkefni heims. Draumar frumkvöðlanna hafa orðið að veruleika.

Ekki sjálfgefin gæði

En friður og velmegun eru ekki sjálfsagðir hlutir. Þetta eru gæði sem byggjast á einlægum skuldbindingum okkar um grundvallarréttindi, lýðræði og réttarríkið. Þetta er verkefni í stöðugri þróun sem sífellt þarf að næra og vernda.

Nú, þegar svipir stríðsátaka vofa á ný yfir heimsálfunni, er samstaðan okkar helsti styrkur. Þegar alþjóðalög eru brotin og mannleg reisn lítilsvirt þá ber okkur skylda til að veita slíku viðnám og vernda þau grundvallargildi og þá hagsmuni sem við deilum með fólki um allan heim.

Í ár fögnum við í fyrsta sinn Evrópudeginum með nýrri stjórn Sambandsins. Frá fyrsta degi í embætti höfum við haft það að leiðarljósi að vinna sem eitt og breiða út boðskap samstöðu um Evrópu og heim allan.

Friðarverkefni í stöðugri mótun

Evrópusambandið er daglegt friðarverkefni. Öll aðildarríkin, stór sem smá og gömul sem ný, eiga sitt sæti við borðið og raddir þeirra hljóma jafnhátt. Að búa til samstöðu úr fjölbreytninni getur verið vandasamt, en þrotlaus samvinna og þolinmæði í viðræðum leiða okkur að bjargföstu samkomulagi. Nú á dögum þarf að leysa þetta af hendi á heimsvísu. Við bjuggum til utanríkisþjónustu Evrópusambandsins til að ná þessu markmiði og vinna með samstarfsaðilum okkar í heiminum öllum, í Afríku og í arabalöndunum, Ameríku og Asíu.

Að binda enda á stríð er að ljúka deilum og sætta gamla fjandmenn. Einnig snúast stríðslok um að tryggja betri framtíð fyrir yngri kynslóðirnar. Þess vegna sameinumst við um að berjast gegn öfgahyggju og skipulagðri glæpastarfsemi, og um að takast á við neikvæð áhrif loftlagsbreytinga og tryggja orkuöryggi okkar í framtíðinni.

Langtímamarkmið

Við vinnum að því að hækka alþjóðlega staðla svo að við getum öll drukkið hreint vatn og andað að okkur hreinu lofti. Svo við öll fáum notið sambærilegra lífsgæða og afurða og í Evrópu. Við eigum í samstarfi um allan heim um að fjárfesta í menntun og nýsköpun svo við höfum fleiri möguleika, jafnvel fyrir þau okkar sem fæðast fátæk og búa við átök.

Evrópusambandið er framtíðarverkefni. Af þeim sökum fögnum við Evrópudeginum, til að minnast liðinnar tíðar, en einnig til að líta til framtíðar. Ég vona að þið viljið vera með okkur í að skapa heim þar sem fólki er, óháð því hver eða hvar það er, frjálst að móta líf sitt og vinna að settu marki.

Greinin birtist þessa dagana í fjölmiðlum um víðan heim.




Skoðun

Sjá meira


×