Skoðun

Heildarsýn skiptir sköpum í ráðgjöf við nemendur

Guðrún H. Sederholm skrifar
Einu sinni enn gríp ég til greinarskrifa. Ástæðan er grein sem Fréttablaðið birti á forsíðu og inni í blaðinu 7. maí sl. varðandi áhrif styttingar náms í framhaldsskóla, á brotthvarf nemenda.

Fram kemur í viðtali við Magnús Þorkelsson skólameistara og Kristrúnu Birgisdóttur, sérfræðing hjá Námsmatsstofnun, að nemendur séu að flosna upp frá námi í æ ríkari mæli en áður vegna andlegra og líkamlegra veikinda. Magnús tekur fram að álag á ráðgjafa í skólum sé gríðarlegt og hafi verið í langan tíma.

Það eru sem sé komnir alvarlegir brestir sem birtast helst í brotthvarfi nemenda.

Ekki kemur mér þetta á óvart því ég hef varað við þessu opinberlega í meira en tuttugu ár. Eftir mig liggja skýrslur þess efnis að líta þurfi heildstætt á líðan og aðstæður nemenda ef þeir eiga að dafna.

Skýrslurnar voru skrifaðar fyrir tvo ráðherra með tíu ára millibili. Annars vegar fyrir Svavar Gestsson þegar hann réði mig til að þróa ráðgjöf í grunnskólum landsins og hins vegar Björn Bjarnason sem tilnefndi mig formann nefndar um eflingu ráðgjafar á öllum skólastigum.

Fram kom í báðum þessum verkum sem unnin voru fyrir mennta-og menningarmálaráðuneytið alvarleg ábending um að sinna þyrfti persónulegri ráðgjöf við nemendur ef ekki ætti illa að fara.

Tillaga mín var alltaf sú að félagsráðgjafar væru ráðnir að grunn-og framhaldsskólum ásamt náms-og starfsráðgjöfum til að veita nemendum skikkanlega þjónustu, kennurum og stjórnendum handleiðslu og foreldrum ráðgjöf.

Félagsráðgjafa í skólana

Vinnulag félagsráðgjafa felur einfaldlega í sér heildarsýn á aðstæður nemandans þegar kemur að persónulegum vanda. Nemandinn er nefnilega bæði andlega og líkamlega til staðar í skólanum ef hann mætir á annað borð. Hann er aldrei bara nemandi, hann er líka manneskja. Hlutverk skólans, samkvæmt lögum frá 2008, er að búa hann undir þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi. Brotthvarfsnemandi fer á mis við þann undirbúning að mestu leyti.



Skólinn er sá vettvangur þar sem hægt er að beita heildstæðri þjónustu og ná til nemenda, greina vanda, veita stuðning og ráðgjöf auk þess að beina nemandanum í viðeigandi þjónustu innan heilsugæslu eða í önnur þau úrræði sem nauðsynleg má telja.

Svíar og Finnar hafa beitt sér fyrir því að barna- og unglingavernd sé hluti af heilsuþjónustu innan skólakerfisins. Þjónusta við nemendur verður öflugust í nærumhverfi þeirra. Félagsráðgjafar eru sérfræðingar í einmitt slíkri þjónustu.

Ábendingar mínar til tveggja ráðherra auk fjölda blaðagreina um efnið eru í fullu gildi og gætu breytt vondri stöðu í viðunandi stöðu með því að ráða félagsráðgjafa inn í skólana. Þeir myndu brúa bilið milli samfélags – foreldra – skóla – og nemenda í persónulegri ráðgjöf því ekki fæst við hana ráðið eins og staðan er í dag. Álag á alla aðila skólakerfisins er alltof mikið.




Skoðun

Sjá meira


×