Skoðun

Um kennslu og slagsíður

Torfi Stefán Jónsson skrifar
Í síðustu viku vakti Stundin athygli á glæru sem ég og fleiri hafa notað við kennslu í Fél. 303 (stjórnmálafræði). Síðan er lagt út frá glærunni um að talsverð vinstri slagsíða sé í kennslunni. Þessi glæra er ein af rúmlega 100 sem ég nota í kennslu. Sumar glærur innihalda texta, aðrar myndir, skopmyndir (takk Halldór Baldursson) og fleira. Ég notast ýmist við PowerPoint eða netforritið prezi.com. Í mínum huga eru glærur alls ekki eitthvað sem nemendur geta treyst á sem frábærar glósur fyrir próf. Ég vil helst nota glærur til að varpa einhverju fram til greiningar. Ýmist sjálfur, með nemendum eða þá eingöngu nemendur.

Þessi tiltekna glæra er unnin upp úr um 11 blaðsíðum í bókinni Stjórnmálafræði fyrir framhaldsskóla eftir Magnús Gíslason, útgefin 2007. Þar eru tekin fyrir nokkur hugtök og þau rædd og reynt að meta hvort þau tilheyri fremur hægri eða vinstri. Mestu máli skiptir samhengið með sýnidæmunum. Þetta er þó engan veginn tilraun til þess að búa til einhvern vinstri eða hægri ás, sem fær reyndar á sig margs konar gagnrýni í tímum. Reyndar byrjuðum við áfangann á að notast við politicalcompass.org og ræddum síðan kosti og galla þess fyrirkomulags.

Til að læra um stjórnmál eru nemendur sendir til að taka viðtöl við stjórnmálamenn sem bregðast ótrúlega vel við slíkum beiðnum og eiga þakkir skildar fyrir liðlegheit. Eins förum við yfir hugmyndafræði, hvaðan hugmyndir koma og í hvaða umhverfi þær spretta fram, kosti þeirra og galla. Loks hef ég alltaf reynt að fiska einhverja gestafyrirlesara til að lífga upp á tímana. Á þessari önn fékk ég Skota til að ræða þjóðaratkvæðagreiðsluna í Skotlandi 2014, ómetanleg innsýn sem fékkst þar. Síðan fékk ég íslenskan stjórnmálamann úr Sjálfstæðisflokknum til að ræða breytingar á stjórnmálum í sveitarstjórnar- og landsmálum síðastliðin 40 ár. Það að hægt sé fá slíkan reynslubolta til að miðla þekkingu sinni er frábært.

Það sem slær mig helst í gagnrýni sumra einstaklinga í framhaldi af fréttinni í Stundinni, er að ætla bráðgáfuðum og gagnrýnum nemendum að þeir taki eitthvað sem ég ber á borð fyrir þá sem sannleik um gott og illt. Að ég geti og reyni með illkvittnum glærum að lokka þau öll yfir á vinstri væng stjórnmálanna. Bæði er það oftrú á sannfæringarkrafti mínum (og vilja) og ekki síst vantrú á ungu fólki í framhaldsskólum.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×