Innlent

Vill lífeyrissjóði áhrifalausa

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Nái tillaga Kristjáns hljómgrunni verða fulltrúar lífeyrisþega áhrifalausir í stjórnum þeirra fyrirtækja sem sjóðirnir eiga í.
Nái tillaga Kristjáns hljómgrunni verða fulltrúar lífeyrisþega áhrifalausir í stjórnum þeirra fyrirtækja sem sjóðirnir eiga í. Vísir/Pjetur
„Efnið var það að lífeyrissjóðirnir skipti sér ekki af aðalfundum í félögum sem þeir fjárfesta í,“ segir Kristján Loftsson, einn eigenda HB Granda, um tillögu sem hann lagði fram á ársfundi Gildis lífeyrissjóðs 15. apríl. Tillaga Kristjáns var of seint fram komin til að teljast tæk á fundinum, en hann hyggst vinna þessari skoðun fylgi innan Samtaka atvinnulífsins (SA) og vill að þau leggi fram álíka tillögur í fleiri sjóðum.

„Aðalmálið er það að lífeyrissjóðir eiga að fjárfesta. Þeir eiga að hugsa um hag fjárfesta og það er ekki þeirra hlutverk að skipta sér af hlutafélögum sem þeir fjárfesta í. Ef þeir eru óánægðir með félögin eiga þeir bara að selja hlut sinn í þeim.“

Sigurður Bessason, formaður Eflingar, er algjörlega andsnúinn þessari nálgun, en verkalýðshreyfingin á sína fulltrúa í stjórnum lífeyrissjóða.

„Ég benti á það að ég tel þetta vera algjörlega ranga nálgun og það hefur sýnt sig að það er mjög eðlilegt að lífeyrissjóðirnir reyni að gæta sinna mála. Þeir eiga náttúrulega að gera það á öllum vígstöðvum,“ segir Sigurður.

Kristján Loftsson.
Hann segir að þvert á móti eigi lífeyrissjóðirnir að beita sér fyrir góðum málum innan félaganna sem þeir eiga hlut í.

„Ég tel að það geri þeir sem fulltrúar þess fjár sem er inni í lífeyrissjóðunum og stjórnir lífeyrissjóðanna eigi ævinlega að hafa skoðun á því sem gerist inni í fyrirtækjum, bæði hvað varðar tillögur sem liggja fyrir og síðan að koma með góðar tillögur inn á ársfundi sem geta verið gagnlegar.“

Kristján segir hins vegar að lífeyrissjóðirnir eigi ekki að vera með puttana í rekstri fyrirtækja.

„Þessir gæjar ætla að gína yfir öllu. Við kynntumst því á fundum í gamla daga þegar Lífeyrissjóður verslunarmanna sagðist styðja mann sem er í púra samkeppni í útflutningi á sjávarafurðum við HB Granda.“

Hann segist munu beita sér fyrir því að SA flytji álíka tillögur í fleiri lífeyrissjóðum og mun endurflytja tillöguna að ári hjá Gildi ef með þarf. En hefur hann stuðning innan SA?

„Flestir sem ég tala við eru inni á þessari línu, það þorir bara enginn að segja frá því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×