Handbolti

Guðjón Valur: Nú fer ég og gef strákunum pitsu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson ræðir málin við nýja aðstoðarþjálfara liðsins, Ólaf Stefánsson.
Guðjón Valur Sigurðsson ræðir málin við nýja aðstoðarþjálfara liðsins, Ólaf Stefánsson. Vísir/Ernir
Eftir talsverða niðursveiflu síðasta rúma árið þá stigu Strákarnir okkar eins og við þekkjum þá aftur út á fjalir Laugardalshallar. Serbía lenti undir íslensku hraðlestinni sem vann ótrúlegan sextán marka sigur, 38-22.

Með viljann að vopni og sjálfstraustið í botni hreinlega keyrðu strákarnir yfir Serbíu frá fyrstu mínútu. Komust í 8-1, misstu það niður í tvö mörk, 9-7, en gáfu þá bara aftur í og litu aldrei til baka. 16-10 í hálfleik og síðan var gefið í botn og keyrt yfir andstæðinginn í seinni hálfleik. Einhver besta frammistaða sem liðið hefur sýnt í nokkur ár. Þetta geta strákarnir og þeir vita það manna best.

„Það small eiginlega allt frá byrjun og það gerir allt auðveldara. Þetta var frábær frammistaða, sama hvar drepið er niður fæti,“ sagði brosmildur landsliðsfyrirliði, Guðjón Valur Sigurðsson, en hann fór algjörlega á kostum. Skoraði tólf mörk í leiknum og þar af tíu úr hraðaupphlaupum.

„Við vorum með svör við öllu og sundurspiluðum þá. Okkur hefur liðið vel og stemningin góð þó svo spilamennskan hafi verið slæm upp á síðkastið. Það er leiðinlegt að spila illa. Við þykjumst vita hvað hefur verið að og það hefur tekið tíma að laga það. Vonandi höldum við áfram svona þó svo ég sé nú ekki að gera ráð fyrir að vinna Serbíu á útivelli með sextán mörkum.“

Guðjón segir að það hafi verið lífsnauðsynlegt að ná í þessi stig og ofan á þetta verði að byggja. Eftir erfitt gengi segir hann afar ljúft að hafa náð að sýna aftur hvað liðið getur.

„Við höfum verið að spila langt fyrir neðan okkar getu og það hefur nagað alla inn að beini. Það detta nokkur kíló af öxlunum í kvöld. Nú fer ég og gef strákunum pitsu,“ sagði fyrirliðinn og brosti allan hringinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×