Innlent

Geta framleitt 4.000 tonn af metanóli

svavar hávarðsson skrifar
Stækkun verksmiðjunnar hefur tekið tæpt ár.
Stækkun verksmiðjunnar hefur tekið tæpt ár. mynd/CRI
Carbon Recycling International (CRI) hefur lokið stækkun verksmiðju sinnar í Svartsengi og hefur framleiðslugeta hennar þrefaldast. Hægt er að framleiða fjögur þúsund tonn af endurnýjanlegu metanóli á ári. Framleiðsla verksmiðjunnar dregur jafn mikið úr losun koltvísýrings og um 2.200 rafmagnsbílar. Minnkun gróðurhúsalofttegunda jafngildir því áhrifum þess að sjöfalda flota rafbíla í landinu, segja forsvarsmenn fyrirtækisins.

Verksmiðjan er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum og er fyrirtækið stærsti framleiðandi umhverfisvæns eldsneytis hér á landi. Í verksmiðjunni er endurnýjanlegt metanól, sem er fljótandi eldsneyti, búið til úr rafmagni með samruna vetnis og koltvísýrings.

Ólafur Jóhannsson
Ólafur Jóhannsson, forstöðumaður samskipta- og sölumála hjá CRI, segir spurður um sölumálin að helstu viðskiptavinir á Íslandi hafa verið framleiðendur lífdísils, en metanól er nauðsynlegur þáttur í að breyta fitu úr jurtum og dýrum í dísil. „Erlendir viðskiptavinir okkar eru jöfnum höndum lífdísilframleiðendur og olíufélög, til dæmis í Hollandi og Svíþjóð. Íslensku olíufélögin eru að setja upp og prófa nauðsynlegan búnað, en þau hafa einfaldlega ekki verið í stakk búin til þess að hefja íblöndun í bensín. Söluverðið og þar með söluverðmætið er eðlilega trúnaðarmál á milli okkar og viðskiptavina okkar,“ segir Ólafur en framkvæmdir við verksmiðjuna hafa staðið frá síðasta sumri og að þeim hafa unnið á framkvæmdatímanum tugir verktaka, auk starfsmanna CRI.

Nýlega gerði CRI samning með samstarfsaðilum frá Þýskalandi, Spáni og Belgíu um byggingu eldsneytisverksmiðju í Þýskalandi til framleiðslu metanóls með sömu aðferðum og beitt er í Svartsengi. Þar er nýttur útblástur frá kolaorkuveri orkufyrirtækisins Steag í Lünen í Þýskalandi og þannig dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Verkefnið hlaut styrk úr Horizon 2020 rannsóknaráætlun Evrópusambandsins.

Milljarðar lítra af metanóli brenndir

  • Carbon Recycling International (CRI) var stofnað á Íslandi árið 2006 með það að markmiði að þróa lausnir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með framleiðslu á umhverfisvænu eldsneyti.
  • CRI tók í notkun fyrsta áfanga eldsneytisverksmiðjunnar í Svartsengi árið 2012. Hjá fyrirtækinu starfa á fjórða tug starfsmanna á Íslandi og erlendis.
  • Hér á landi, í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar, er krafist aukinnar notkunar á endurnýjanlegu eldsneyti, með það að markmiði að draga úr notkun á olíu í samgöngum, til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og sporna þannig við hnattrænum loftslagsbreytingum. Þá ryður metanól sér nú til rúms sem skipaeldsneyti, en með notkun þess má losna við áhrif mengandi brennisteins- og nitursambanda á lífríki sjávar.
  • Samkvæmt bresku gagnaveitunni Argus JJ&A voru á síðasta ári um 32 milljarðar lítra af metanóli notaðir sem eldsneyti, aðallega í Evrópu og Asíu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×