Innlent

900 hjúkrunarfræðingar gætu hætt næstu þrjú árin

ingibjörg bára stefánsdóttir skrifar
Nemendur við hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri.
Nemendur við hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri. Mynd/háskólinn á Akureyri
Um 900 hjúkrunarfræðingar mega hætta störfum sökum aldurs á næstu þremur árum. Á sama tíma er gert ráð fyrir að 400 til 500 hjúkrunarfræðingar útskrifist. Á þetta er meðal annars bent í nýrri skýrslu Vinnumálastofnunar um stöðu og horfur á vinnumarkaði 2015 til 2017.

Samkvæmt könnun sem Félag hjúkrunarfræðinga gerði í október í fyrra íhuga um 30 prósent hjúkrunarfræðinga að flytja af landi brott á næstu tveimur árum.

Ólafur G. Skúlason
„80 prósent á aldrinum 24 til 34 ára hugleiðir flutning af landi brott. 35 prósent af þeim sem eru 45 ára og eldri íhuga að flytja utan,“ segir Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Hann segir nauðsynlegt að hækka laun og fjölga námsplássum til þess að hægt verði að anna eftirspurn eftir hjúkrunarfræðingum á íslenskum hjúkrunarstofnunum. „Ef allir hætta sem mega og fjöldi flytur til útlanda blasir mikill vandi við. Það er nú þegar skortur á hjúkrunarfræðingum,“ tekur hann fram.

Helga Jónsdóttir, forseti Hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands, segir námsplássin hafa verið 70 til 95 en undanfarin ár hafi um 70 útskrifast að meðaltali á hverju ári. Um 150 til 250 hafi reynt við samkeppnispróf við lok haustannar undanfarin ár. Inntöku í námið verður nú breytt með sérstöku aðgangsprófi, svokölluðu A-prófi, sem umsækjendur þreyta í mars og júní. „Plássin verða 100 í haust. Með þessu erum við meðal annars að reyna að koma til móts við þarfir.

Okkur er vel ljóst að það vantar marga hjúkrunarfræðinga en fjárveitingar til deildarinnar hafa aldrei verið í samræmi við eðli námsins. Það hefur margsinnis verið bent á það í úttektarskýrslum.“

Sigfríður Inga karlsdóttir
Umsækjendur um hjúkrunarnám við Háskólann á Akureyri munu ekki þreyta aðgangspróf í ár. „Þetta verður óbreytt að svo stöddu. Allir sem skrá sig og standast kröfur um inntöku geta hafið nám á haustmisseri og tekið samkeppnispróf í lok þess. Við höfum haft góða reynslu af slíku fyrirkomulagi. Við viljum gefa öllum tækifæri til að læra það sem þeir hafa áhuga á og sýna síðan kunnáttu sína,“ segir Sigfríður Inga Karlsdóttir, starfandi formaður hjúkrunarfræðideildar Háskólans á Akureyri. Hún getur þess að síðasta haust hafi 142 skráð sig í námið, 121 tekið öll samkeppnisprófin og 51 komist áfram.

„Plássin eru 50 en það komst einn áfram til viðbótar vegna þess að tveir voru með sömu einkunn.“

Það er mat Sigfríðar að námsplássin þyrftu að vera fleiri. „Miðað við þær kröfur sem við gerum um klínískt nám á stofnunum getum við ekki tekið inn fleiri. Það hefur verið rætt um að nýta göngudeildarþjónustu í þessu samhengi. Það verður að vísu ekki næsta vetur en okkur dreymir um það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×