Skoðun

Velheppnuð skuldaleiðrétting

Sigurður Már Jónsson skrifar
Fá eða engin stærri verkefni á vegum stjórnvalda hafa gengið jafn vel á undanförnum áratugum og leiðrétting fasteignaveðlána. Í stað margra ára fums og fáts við endurútreikning lána eftir hrun hefur framkvæmd og útfærsla leiðréttingarinnar verið farsæl og skjót og áætlanir hafa gengið eftir. Nú er lokið samþykktarferli þeirra 105 þúsund umsækjenda sem fengu útreikning sinn birtan í desember 2014 og af þeim samþykktu 99,4%. Kostnaður við leiðréttinguna verður sá sami og reiknað var með í upphafi og engin óvænt útgjöld hafa komið upp í ferlinu. Niðurstöður um 3,9% umsókna á eftir að birta, m.a. í tilfellum dánarbúa, þeirra sem uppfylla ekki skilyrði til leiðréttingar eða þeim tilfellum þar sem vandkvæði eru við að tengja heimilissögu eða lán við umsækjendur. Stefnt er að því að þessu verki verði lokið á vormánuðum.

Heildarkostnaður við leiðréttingu fasteignaveðlána var áætlaður um 85 milljarðar króna. Þar af næmi kostnaður af niðurfærslu lána 80 milljörðum og áætlað tekjutap Íbúðalánasjóðs vegna aðgerðarinnar næmi um 5 milljörðum kr. yfir nokkurra ára tímabil. Á móti kæmi að lánasafn Íbúðalánasjóðs batnar verulega samhliða leiðréttingunni, sem kallar á minni afskriftir sjóðsins í framtíðinni og bætir þar af leiðandi stöðu hans. Þá er gert ráð fyrir að vaxtagreiðslur heimila lækki umtalsvert þegar fram líða stundir vegna lægri höfuðstóls og betri eiginfjárstöðu. Gert er ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna greiðslu vaxtabóta muni lækka samtals um 2,5 ma.kr. á nokkurra ára tímabili vegna þessa.

Fjármögnun leiðréttingarinnar hefur verið tryggð sem meðal annars má rekja til hækkunar bankaskatts og þess að slitabú föllnu fjármálafyrirtækjanna eru ekki lengur undanskilin honum. Áhyggjur þeirra sem óttuðust að leiðréttingin leiddi til þenslu hafa ekki gengið eftir. Þvert á móti hafa þau yfirlýstu markmið leiðréttingarinnar náðst, að bæta eiginfjárstöðu heimilanna án þess að stefna í hættu efnahagsstöðugleikanum sem er forsenda hagsældar og framfara. Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga að:

Eiginfjárstaða 54 þúsund fjölskyldna styrkist með beinum hætti og fjögur þúsund aðilar færast úr því að eiga minna en ekkert yfir í að eiga jákvætt eigið fé í fasteignum sínum.

Við fullnýtingu leiðréttingarinnar geta lán lækkað um eða yfir 20%.

Ráðstöfunartekjur þeirra sem fullnýta leiðréttinguna aukast um 17% á ári á árunum 2015-2017.

Leiðréttingin er eitt skref í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að bæta hag heimilanna í landinu og á næstunni munu frekari aðgerðir verða sýnilegar.




Skoðun

Sjá meira


×