Innlent

Lækkar tolla til að ná fataverslun heim

kolbeinn óttarsson proppé skrifar
Fjármálaráðherra vinnur að tillögum um einföldun á tollakerfinu. Hann vill afnema ýmsa tolla sem aðeins eru settir á til tekjuöflunar, enda skili þeir ekki miklu.
Fjármálaráðherra vinnur að tillögum um einföldun á tollakerfinu. Hann vill afnema ýmsa tolla sem aðeins eru settir á til tekjuöflunar, enda skili þeir ekki miklu. vísir/vilhelm
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra boðar heildarendurskoðun á tollakerfinu. Það sé flókið og margbrotið, leggi kostnað á atvinnulíf og hið opinbera og skili tiltölulega litlum tekjum í ríkissjóð. Sérstaklega horfir hann til tolla á föt.

„Það verður að bíða þess að við fullmótum tillögurnar og förum með þær í gegnum ríkisstjórn, en augljóslega er það sláandi að við erum að tapa t.d. fataverslun úr landinu í stórum stíl og í síauknum mæli eru Íslendingar að sækja sér hversdagsföt til útlanda. Á sama tíma og við erum með tiltölulega háa tolla og síðan tiltölulega hátt virðisaukaskattsþrep ofan á þá tolllagningu.“

Bjarni bendir á að í mörgum tilvikum komi tolllagning ofan á tolllagningu sem þegar hafi átt sér stað hjá Evrópusambandinu sem hækki verðið og í ofanálag bætist 24 próenta virðisaukaskattur á vörurnar. „Þá er ekki nema von að verslunin í landinu eigi erfitt í samkeppni við nágrannalöndin sum.“

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði ráðherra út í tolla á franskar kartöflur á þingi í gær. Hann sagði innlenda framleiðslu standa undir 5 prósentum af markaði, en engu að síður bæru þær 75 prósenta innflutningstolla.

Bjarni segir mikilvægt að gera greinarmun á tollum til að vernda innlenda framleiðslu og tollum sem settir séu í tekjuöflunarskyni.

„Þegar maður horfir til þess hversu litlu þeir skila í raun, þá finnst mér að við hljótum að þurfa að skoða möguleikana á því að afmá þá einn af öðrum. Fari svo að samið verði um tuga prósenta launahækkanir er þó ljóst að svigrúm ríkisins til að fella niður tolla, lækka skatta eða aðrar álögur verður lítið sem ekkert.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×