Innlent

Húðflúraði á sig merki skólans

Nemendur úr MR afhentu börnunum eina milljón krónur
Nemendur úr MR afhentu börnunum eina milljón krónur Mynd/Berglind Sigurgeirsdóttir
„Við vorum með söfnunarbauka í öllum stofum og þegar við fórum með allt klinkið í bankann eyðilögðum við mynttalningarvélina því við höfðum safnað svo miklu,“ segir Sólveig Bjarnadóttir nemandi úr Menntaskólanum í Reykjavík og ein skipuleggjenda góðgerðarvikunnar í MR.

Nemendur við MR færðu Reykjadal, sumar- og helgardvöl Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra eina milljón króna nú um helgina.

Nemendurnir söfnuðu fénu í góðgerðarviku skólans „Gleði til góðgerða“ og aldrei hefur safnast jafn mikið fé. Nemendurnir tóku við ýmsum áheitum en sá nemandi sem safnaði mestu fé, Benedikt Traustason, húðflúraði merki skólans á sig gegn áheitum. Annar nemandi safnaði áheitum með því að hjóla á milli Selfoss og Reykjavíkur og vinsælt þótti að safna fé með því að taka selfie af sér með rektorshjónunum.

Sólveig var himinlifandi með árangurinn og segir að andinn hafi verið góður í skólanum í vikunni. „Nemendurnir voru mjög ánægðir að við skulum hafa valið Reykjadal í þessu verkefni. Fólk var mjög duglegt að gefa en söfnunin fór fram úr okkar björtustu vonum. Í fyrra söfnuðust 650.000 krónur þannig að þetta er mikill árangur,“ segir Sólveig sem ásamt öðrum nemendum úr MR mættu niður í Reykjadal um helgina og afhentu upphæðina börnum sem voru við helgardvöl á Reykjadal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×