Skoðun

Andlegir torfbæir

Finnur Þór Vilhjálmsson skrifar
Í sígildri ritgerð, Why I Write, setti George Orwell fram kjarnyrta skilgreiningu á góðum texta: Good prose is like a windowpane. Góður texti er eins og gluggarúða. Merkinguna þarf varla að útskýra en fyrir siðasakir má nefna að texti á að gera augljóst að hverju sjónum er beint, hvað er verið að segja. Í beinu framhaldi lýsti Orwell því til viðbótar að í verkum hans sjálfs hefði það undantekningarlaust verið þegar hann skorti pólitískt markmið að hann hefði skrifað líflausar bækur, glapist í málskrúð, merkingarlausar setningar, skreytilýsingarorð og kjaftæði almennt.

Frá landnámi og fram á 20. öld bjuggu Íslendingar í torfbæjum. Lengst af þessum tíma þekkti þjóðin engar gluggarúður. Gluggar á torfbæjum – það er hjá þeim lánsömu sem höfðu glugga á annað borð – voru svonefndir skjágluggar. Þeir voru líknarbelgir úr kúm sem voru skafnir og þandir og strengdir á trégrind, þurrkaðir þannig og komið fyrir í gati á þekjunni. Í lýsingu sem finna má á netinu segir m.a. að varla hafi sú birta sem kom gegnum skjáinn nægt nema til að gera ratljóst í húsum við góðar aðstæður. Prófið að setja bökunarpappír fyrir augun, þá fáið þið hugmynd um þetta.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra skilaði fyrir stuttu af sér, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, nú alræmdu bréfi til Evrópusambandsins. Við að lýsa efni þess og þýðingu vefst manni tunga um tönn. Það er von því að enginn, ekki einu sinni sendandi þess, ríkisstjórn Íslands, virðist geta skýrt það almennilega. Miðað við síðustu svör virðist sem ríkisstjórnin telji það í verkahring viðtakandans, ESB, að ráða fram úr hvað bréfið raunverulega segir. Ótrúlegt, en því miður satt.

Ef góður texti er gluggarúða þá er þetta bréf ríkisstjórnarinnar til ESB skjágluggi af því tagi sem Íslendingar máttu um aldir búa við í torfbæjum sínum. Með því fæst engin skýr mynd af einu eða neinu, öðru nær: það bjagar og myrkvar og byrgir allt sem fyrir verður. Engum hefur tekist að rýna í það og greina handaskil í hugarheimi sendandans. Miðað við þetta bréf er fólki vorkunn að velta fyrir sér hvort ratljóst sé þar yfirhöfuð?

Augljóst undirferli

Það er þeim mun áleitnari spurning ef tekið er mið af því sem öllum er ljóst, og ekki út af þessu bréfi en frekar þrátt fyrir það, að pólitískt markmið ríkisstjórnarinnar er vissulega að ganga af ESB-umsókninni dauðri. Forsvarsmenn hennar skyldi því ekki undra, og allra síst mæta réttmætum spurningum og gagnrýni með þótta og yfirlæti, þó svo óskiljanlegt bréf sem hún ákvað að senda, að sögn í þágu þessa pólitíska markmiðs, og getur svo ekki einu sinni tjáð sig einum rómi um, jafnvel ekki utanríkisráðherra sjálfur frá einni setningu til annarrar, skuli hjá alþjóð – og alþjóðastofnunum – mæta engu nema reistum brúnum, kollklóri og axlayppingum. Látum þá vera allt um hið augljósa undirferli í þessu furðulega máli: að sniðganga réttan stjórnskipulegan farveg svona mála. Um það ætti nóg að vera komið fram nú þegar.

Orwell heitnum hefði kannski þótt fróðlegt að hitta hér fyrir kennslubókardæmi um algera andstæðu hans eigin ágætu prinsippa í textaskrifum. Þetta er hins vegar ekki skemmtilegt fyrir okkur Íslendinga dagsins í dag, sem finnum okkur hinum megin við skjáglugga ríkisstjórnarinnar, guðum á gluggann, reynum af veikum mætti að rýna í rökkrið fyrir innan, bönkum jafnvel og hrópum. Huggum okkur samt við það að þó landinu virðist um þessar mundir stjórnað innan úr torfbæ þá erum við hin flest komin út í birtuna og getum séð og metið hlutina eins og þeir raunverulega eru.




Skoðun

Sjá meira


×