Skoðun

Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu fyrir hvern?

Birgir Guðjónsson skrifar
Prófessor við HÍ hefur sem oftar farið mikinn við að rægja einkarekstur í heilbrigðiskerfinu og verið fylgt eftir af lektor og alþingismönnum á vinstri væng. Engin tilraun er gerð til að skilgreina gæði.

Eftir 40 ára einkapraxis kemst ég ekki hjá að leggja orð í belg. Þegar ég hóf störf á þáverandi Borgarspítala þótti sjálfsagt að sérfræðingar gæfu einnig kost á þekkingu sinni og reynslu án þess að sjúklingar væru lagðir inn til legu, þ.e. væru „ambulant“ skv. alþjóðlegu heiti. Göngudeildir þekktust þá ekki og var því eingöngu um rekstur einkastofu sérfræðinga að ræða.

Eftir viðtal og skoðun veikinda þarf yfirleitt blóðrannsókn og oft röntgenmynd t.d. af lungum. Þótt ég væri starfandi á Borgarspítalanum þurfti ég að hringja sérstaklega til að panta tíma fyrir sjúkling í blóðrannsókn, aðra hringingu þurfti til að fá einnig röntgenmynd ef þörf var á. Þriðju símhringinguna gat þurft til frekari samræmingar. Flóknari röntgenrannsóknir á sjúklingum utan sjúkrahúsa fengust ekki fyrr eftir marga daga.

Hægt var hins vegar að vísa fólki á Landakot þar sem rannsóknardeildin undir stjórn Jóhanns Lárusar Jónassonar tók fyrirvaralaust við sjúklingum til rannsóknar og röntgendeildin undir stjórn Þorkels Bjarnasonar tók röntgenmynd af lungum án nokkurra símhringinga.

Frumkvöðlar

Jóhann Lárus og Þorkell voru frumkvöðlar í að gera ambulant-þjónustu við sjúklinga aðgengilega, lipra og skjóta. Þeirra starfsemi varð enn betri þegar Jóhann Lárus sett á laggirnar rannsóknarstofu í Læknastöðinni og Þorkell röntgenstofu í Domus Medica. Blóðrannsóknastofur komu síðar á öðrum stofum og röntgendeild í einkarekstri hefur síðar verið stofnsett í Orkuhúsinu.

Minnist ég þess að ung margra barna móðir austan af fjörðum greindist með sjúkdóm sem gat þýtt æxli bæði í briskirtli og hálsi. Tölvusneiðmyndatæki var þá komið á aðalspítala landsins og þurfti slíka rannsókn til frekari staðfestingar. Unga móðirin mátti fara til síns heima, koma eftir þrjár vikur til skoðunar á öðru svæðinu og þrem vikum síðar á seinna svæðinu. Þrátt fyrir grátbænir til þáverandi yfirlæknis kom ekki til greina að fá þessarar rannsóknir strax og jafnvel ekki báðar samtímis eftir þrjár vikur. Þetta lýsir vel þjónustulipurð hins opinbera rekstrarfyrirkomulags.

Við könnun í dag þann 9. febrúar fengist blóðrannsókn strax á öllum rannsóknarstofum. Við grunsemdir um meinsemdir í kvið fengist ómskoðun á efri hluta kviðar á morgun þ.e. 10. febrúar á bæði einkaröntgenstofum og LSH. Tölvusneiðmynd af kvið fengist strax í dag í Orkuhúsinu og Rtg. Domus, en þann 20. febrúar eða eftir 11 dag á LSH Fossvogi, eftir 2-3 vikur (þ.e 23. Febr.-2. Mars.) á LSH Hringbraut, tölvusneiðmynd af ristli fengist í Orkuhúsi og Rtg Domus strax eftir tveggja daga undirbúning, en eftir 2-3 vikur á LSH Fossvogi eða Hringbraut.

LSH sinnir sínum inniliggjandi sjúklingum ugglaust fljótt og vel en hvert vildu háskólakennararnir og alþingismennirnir vera sendir til frekari rannsókna ef þeir kæmu til læknis með grun um slæmt innanmein.

Gæti svarið við fyrirsögninni verið SJÚKLINGA.

Skrifað að morgni 9. febrúar.




Skoðun

Sjá meira


×