Skoðun

Starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun

Jóhanna Einarsdóttir skrifar
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var undirritaður af Íslands hálfu árið 2007. Tilgangur samningsins er að tryggja fötluðu fólki mannréttindi til jafns við aðra þjóðfélagsþegna. Í honum er tilgreint að aðildarríkin skuli stefna að því að koma á menntakerfi á öllum skólastigum án aðgreiningar. Þrátt fyrir yfirlýsta stefnu um jafnrétti til náms hefur fólk með þroskahömlun á Íslandi og í öðrum löndum átt fá tækifæri til að afla sér frekari menntunar að framhaldsskóla loknum.

Starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands er fyrsta námsframboð í háskóla fyrir fólk með þroskahömlun hér á landi. Námið hefur verið starfrækt frá árinu 2007 og mun fjórði hópurinn útskrifast nú í vor.

Meginmarkmið námsins er tvíþætt. Annars vegar að undirbúa nemendur til starfa á afmörkuðum starfsvettvangi, svo sem í leikskólum, frístundaheimilum og á vettvangi fatlaðs fólks. Hins vegar að gera nemendum kleift að öðlast hagnýta þekkingu og félagslega færni í námsumhverfi án aðgreiningar í því skyni að greiða fyrir aukinni þátttöku þeirra í samfélaginu. Starfstengda diplómanámið hefur verið mikil lyftistöng fyrir fólk með þroskahömlun og mikilvægt skref í réttindabaráttu fatlaðs fólks. Námið miðar að því að veita nemendum möguleika á fullgildri þátttöku í samfélaginu með því að gefa þeim tækifæri til náms í háskóla. Námið hefur vakið mikla athygli í útlöndum þar sem áhugi hefur verið á að taka upp sambærilegt nám við erlenda háskóla. Námið hefur jafnframt hlotið viðurkenningar innanlands, Múrbrjót Landssamtakanna Þroskahjálpar árið 2007 og á Alþjóðadegi fatlaðs fólks þann 3. desember sl. hlaut Menntavísindasvið Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands. Í umsögn dómnefndar kemur fram að verðlaunin séu veitt fyrir „frumkvöðlastarf á heimsvísu í að bjóða fólki með þroskahömlun tækifæri til að stunda háskólanám. Þetta framtak hefur mikla þýðingu fyrir jafnrétti fólks með þroskahömlun til náms og atvinnuþátttöku“.

Diplómanámið hefur þegar sannað gildi sitt. Rannsóknir hafa sýnt að nemendur sem hafa lokið náminu eiga mun auðveldara með að komast í störf á sínu námssviði og bera meiri ábyrgð að námi loknu. Félagsleg þátttaka í háskólaumhverfinu og samvera við aðra háskólanemendur er jafnframt mikilvægur ávinningur. Námið hefur rutt brautina við að bæta líf og aðstæður fatlaðs fólks í íslensku samfélagi.




Skoðun

Sjá meira


×