Innlent

Hefur ekki heyrt frá Fatímu í fjögur ár

kristjana björg guðbrandsdóttir skrifar
Jóhanna hefur ekki haft neinar fregnir af Fatímu síðan stríðið hófst en vonar það besta.
Jóhanna hefur ekki haft neinar fregnir af Fatímu síðan stríðið hófst en vonar það besta. Fréttablaðið/Vilhelm
Jóhanna Kristjónsdóttir, rithöfundur og fyrrverandi blaðamaður, hitti fjórtán ára gamla stúlku, Fatímu, í ferðalagi sínu til Jemens fyrir meira en áratug. Þá safnaði hún efnivið í bók sína Arabíukonur. Metnaður stúlkunnar hreif Jóhönnu en Fatíma reyndi að læra ensku af sjálfsdáðum því skóli hafði verið lagður niður í samfélagi hennar vegna fátæktar.

Árið 2005, þegar Jóhanna hlaut verðlaun Hagþenkis fyrir Arabíukonur, fannst henni kjörið að nota hluta af peningaverðlaununum til að stofna sjóð til að aðstoða jemenskar stúlkur. „Þetta voru 350 þúsund krónur, sem nýttust betur í Jemen en hér á Íslandi. Það var byrjunin og þetta er búið að vaxta sig afskaplega vel,“ segir Jóhanna en nú tíu árum seinna hefur hún safnað tugum milljóna til bágstaddra í Miðausturlöndum og Afríku. Nú síðast 15 milljónum í söfnun sjóðsins og UNICEF til þess að efla menntun sýrlenskra barna sem flúið hafa til Jórdaníu.

Þar í landi eru fleiri en 220.000 flóttabörn á skólaaldri. Mörg þeirra sækja skóla í flóttamannabúðum þar sem þau búa eða í almenningsskólum í Jórdaníu. Skólarnir eru hins vegar að verða yfirfullir og fleiri en 60.000 börn njóta hvorki formlegrar né óformlegrar menntunar. „Ætli það séu ekki nokkrir tugir milljóna sem við höfum safnað,“ segir hún en árið 2013 safnaði sjóðurinn 10 milljónum fyrir sjúkrahúsi og árið 2012 safnaði hann fimm milljónum til stuðnings hjálparstarfi Rauða hálfmánans í Sýrlandi. Árið 2008 söfnuðust 18,2 milljónir króna á glæsimarkaði sem haldinn var í Perlunni. Markaðurinn var haldinn til stuðnings uppbyggingu skóla fyrir börn og konur í Jemen.

Í dag er Fatíma orðin 25 ára gömul og Jóhanna hefur ekki heyrt í henni í fjögur ár. Hún vonar að hún hafi komist af. „Ég hef ekkert heyrt í Fatímu síðan þessar óeirðir mögnuðust. Það er þannig þegar maður á vini í þessum heimshluta að sumir þeirra eru dánir Ég vona að hún hafi komist af.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×