Innlent

Fjölgar í 45 sveitarfélögum landsins

sveinn arnarsson skrifar
Gleði á 17. júní. Landsmönnum fjölgaði um tæplega 3.500 í fyrra. Mikil fjölgun varð á sunnanverðum Vestfjörðum.
Gleði á 17. júní. Landsmönnum fjölgaði um tæplega 3.500 í fyrra. Mikil fjölgun varð á sunnanverðum Vestfjörðum. Fréttablaðið/Daníel
Íbúum Reykjavíkur fjölgaði um 592 á síðasta ári sem er fjölgun um 0,5 prósent. Fjölgaði hlutfallslega meira í fjörutíu sveitarfélögum landsins en í Reykjavík. Mest fækkun var í Djúpavogshreppi en þar fækkaði íbúum um ríflega tíu prósent á einu ári.

Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar um íbúafjölda í sveitarfélögum landsins þann 1. janúar 2015. Í ársbyrjun voru landsmenn 329.100 talsins og hafði fjölgað um 3.429 frá sama tíma í fyrra. Fjölgun landsmanna er því um eitt prósent.

Í þremur stærstu sveitarfélögum landsins, Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, fjölgar íbúum samanlagt um 2.007. Í Kópavogi fjölgaði íbúum hlutfallslega um 2,8 prósent en í Hafnarfirði um 1,9 prósent.

Ef svæði eru skoðuð í heild sést að Vestfirðir standa í stað, örlítil fækkun er á Austurlandi en fækkun á Norðurlandi vestra. Hin svæðin standa vel að vígi og fjölgun er á landsbyggðunum í heild sinni. Hins vegar, þegar sveitarfélög eru skoðuð, kemur í ljós að fækkun er umtalsverð á sumum svæðum.

Þóroddur Bjarnason
„Það vekur athygli í þessum tölum að íbúum sveitarfélaga í námunda við sterka kjarna fjölgar umtalsvert. Íbúum nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur fjölgar meira en íbúum í Reykjavík. Með sama hætti fjölgar meira í nágrannasveitarfélögum Akureyrar en Akureyringum,“ segir Þóroddur Bjarnason, formaður stjórnar Byggðastofnunar. „Þetta á sér ýmsar skýringar en hækkandi fasteignaverð hefur eflaust talsverð áhrif.“

Á suðvesturhorni landsins fjölgar íbúum talsvert á Reykjanesi, í Reykjanesbæ og Grindavík, en einnig í Árborg og Hveragerði austan Hellisheiðar. „Fólki fjölgar líka á svæðum utan áhrifasvæða þéttbýlisstaða. Það vekur athygli að þau átta sveitarfélög þar sem fólksfjölgun er mest eru fámennir hreppar víðsvegar um landið,“ segir Þóroddur.

Athygli vekur að langmesta fækkunin er í Djúpavogshreppi þar sem íbúum fækkar um ríflega tíu prósent á einu ári. „Árið í fyrra var afar erfitt fyrir Djúpavog og flutningur Vísis til Grindavíkur kostaði sveitarfélagið tíund íbúafjöldans. Það er mikilvægt að byggðarlagið nái viðspyrnu strax,“ segir Þóroddur. „Sem betur fer er ástandið á Djúpavogi ekki dæmigert fyrir landsbyggðirnar sem eru margar í sókn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×