Innlent

Eyjamenn skoða kaup á sorpbrennslustöð

garðar örn úlfarsson skrifar
Sorp er nú flutt upp á fastalandið, ýmist til urðunar eða brennslu.
Sorp er nú flutt upp á fastalandið, ýmist til urðunar eða brennslu. Fréttablaðið/Stefán
Óbreytt ástand í sorpmálum Vestmannaeyinga eða kaup á sorpbrennslustöð eru sagðir þeir kostir sem nú koma til greina sem framtíðarlausn fyrir sveitarfélagið.

„Í dag er almennt sorp flutt upp á land til eyðingar, ýmist í urðun eða brennslu. Slíkt hefur í för með sér mikinn kostnað að ógleymdum vandamálum sem fylgja því að flytja sorp í farþegaskipi,“ segir starfshópur sem skoðar sorpmál Eyjamanna. Þróun í sorpbrennslu hafi hins vegar verið mikil frá því síðasta sorpbrennsla var reist í Eyjum. Stöð sem hentaði myndi kosta 320 til 350 milljónir króna og gæti rúmast í núverandi húsnæði.

„Nú er svo komið að hægt er að kaupa tilbúnar stöðvar sem uppfylla alla staðla Evrópusambandsins um mengun í nánast öllum stærðum og gerðum,“ segir starfshópurinn sem einnig hefur athugað þá aðferð að framleiða metangas úr sorpinu í samvinnu við Sorpu bs. „Ekki hafa hins vegar fengist nægjanlegar upplýsingar enn þá til að meta hvort þetta sé eitthvað sem hentar í Vestmannaeyjum.“

Meðal kosta sem skoðaðir voru var að flytja sorp til brennslu í Færeyjum. „Í ljós kom að kostnaður var svipaður og við að flytja almenna sorpið upp á land en í desember kom erindi frá stjórnendum brennslustöðvarinnar um að þeir sæju sér ekki fært að taka við almenna sorpinu úr Vestmannaeyjum vegna mikillar aukningar á sorpmagni í Færeyjum,“ segir starfshópurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×