Innlent

Bjóða út kaup á flugfarmiðum fyrir starfsmenn hins opinbera

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Félag atvinnurekenda hefur gagnrýnt fyrirkomulagið.
Félag atvinnurekenda hefur gagnrýnt fyrirkomulagið.
Útboð á flugfarmiðum vegna ferða ríkisstarfsmanna mun fara fram á fyrri hluta ársins. Þetta kom fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu í gær.

Í gildi er samningur á milli ríkisins og Icelandair eftir útboð sem fór fram árið 2011. Flugfélagið Iceland Express kærði útboðið til kærunefndar útboðsmála sem úrskurðaði að gallar hefðu verið á framkvæmd útboðsins. Undirbúningur nýs útboðs hefur staðið yfir hjá Ríkiskaupum.

Að sögn Ólafs Stephensens, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, hefur ríkið dregið lappirnar í þessu máli í rúm tvö ár og að í auglýsingu á rammasamningsútboði Ríkiskaupa sem var birt 28. febrúar voru farmiðakaup ekki þar á lista.

Félag atvinnurekenda hefur áður gagnrýnt að útboð á flugfarmiðum hafi ekki verið sett í útboð þrátt fyrir lagaskyldu. „Við erum mjög ánægð með að gagnrýni og rökstuðningur okkar hefur skilað sér til fjármálaráðuneytisins,“ segir Ólafur, „Það er augljós hagur fyrir skattgreiðendur og auðvitað sjálfsagt að keppinautar Icelandair fái tækifæri til að vera hleypt að borðinu.“

Í tilkynningu ráðuneytisins kemur fram að við bókanir á ferðum á vegum ríkisins skuli huga að hagkvæmni og virða viðmiðunarreglur ráðuneytisins um góða starfshætti við opinber innkaup. Þá skuli einkahagsmunir starfsmanna ekki vera að leiðarljósi við val á flugfélagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×