Innlent

Stílhreinu einbýlishúsahverfi breytt í klasturslegan bræðing segir í kæru

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Húseigandi í Austurkór sagði það hafa vegið þungt er hann keypti byggingarrétt að úthlutað hafi verið glæsilegum einbýlishúsalóðum.
Húseigandi í Austurkór sagði það hafa vegið þungt er hann keypti byggingarrétt að úthlutað hafi verið glæsilegum einbýlishúsalóðum. Fréttablaðið/Valli
Húseigandi í Austurkór telur Kópavogsbæ hafa reynt að færa eigið tjón yfir á húseigendur með því að fjölga parhúsum og íbúðum í blokkum í hverfinu eftir að einbýlishúsalóðum hafi verið skilað inn.

Í kæru eigenda einbýlishúss í Austurkór á hendur Kópavogsbæ vegna breytinga á skipulagi hverfisins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er vísað til þess að upprunalega hafi svæðið að stórum hluta átt að fá yfirbragð sérbýlishúsabyggðar. Með fjölgun íbúða myndi umferð um götu hans aukast verulega.

„Einkum hafi verið úthlutað glæsilegum einbýlishúsalóðum sem skapað hafi ákveðið byggðarmynstur og hafi það vegið þungt í ákvörðun kæranda um að kaupa byggingarrétt,“ segir í umfjöllun úrskurðarnefndarinnar um rök kærandans. „Í stað stílhreins einbýlishúsahverfis verði til mjög óstílhreinn bræðingur húsa sem líti klasturslega út.“

Kópavogsbær sagði hins vegar að ekki væri á nokkurn hátt hróflað við eign kærandans. „Stærð lóðar hans og byggingarskilmálar séu hinir sömu og áður, útsýni sé ekki skert með skipulagsbreytingunni og skuggavarp á lóð hans sé ekki meira en áður hafi verið gert ráð fyrir,“ segir nefndin meðal annars um sjónarmið bæjarins.

Kærunefndin sagði sveitarstjórnir hafa vald til að þróa byggð í samræmi við lög. Fyrra deiliskipulag hafi gert ráð fyrir 139 íbúðum en hið nýja 161 íbúð. Þá væri áætluð aukning umferðar um 16 prósent ekki talin veruleg. Kröfu kærandans um ógildingu nýja skipulagsins væri því hafnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×