Lífið

Á slóðum sela og mörgæsa

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Við fengum nokkra fína, sólríka daga en líka smá muggu og éljagang,“ segir Ari Trausti.
„Við fengum nokkra fína, sólríka daga en líka smá muggu og éljagang,“ segir Ari Trausti.
Við vorum á um hundrað farþega skipi, nokkru stærra en gamli Gullfoss var, og sigldum mest meðfram ströndum enda hvergi hægt að ferðast um á landi með hóp ferðamanna og engar eru hafnirnar heldur. Leiðin lá meðfram skaga sem gengur út úr stóra kringlótta meginlandinu í áttina að Suður-Ameríku. Hann er frábrugðinn jökulhellunni miklu því á honum eru fjöll og íslaus svæði með klappir, grjót og skriðjökla fram í sjó, firðir og háir tindar. Hann er í raun miklu líkari austurströnd Grænlands en meginlandinu.

Svo eru gríðarlega margar eyjar við ströndina, meira að segja eldvirkar eyjar sem gusu á síðustu öld. Ein af eyjunum er með stórri, sjávarfylltri öskju þannig að hægt er að sigla inn í hana.

íslenski hópurinn Ánægt fólk undir lok ferðar.Myndir/Ari Trausti
Þannig lýsir Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur í stuttu máli landslaginu sem fyrir augun bar í ferðalagi að Suðurskautslandinu í fyrravetur. Íslendingar hafa farið í vinnuferðir og pólgöngur þangað en þetta var fyrsta hópferðin. Bændaferðir efndu til hennar og Ari Trausti var fararstjóri. Við Íslendingarnir vorum ellefu og svo var fólk af býsna mörgum öðrum þjóðernum á sama skipi, segir hann.

SelirnirSæfílar eru risastórir og eru þarna að fara úr vetrarhárunum.
Ein glæsilegasta siglingaleið heims

Áætlunin var ekki niðurnjörvuð, kapteinninn réð því að vissu leyti hvað gert var, að sögn Ara Trausta. Um borð í skipinu voru gúmmíbátar og hver dagur snerist um að fara í skemmtisiglingar á þeim, annaðhvort í land til að skoða tilkomumikið landslag, mörgæsir eða annað spennandi eða að sigla milli ísjaka og skoða seli og hella utan af sjó.

Þarna eru nokkrar tegundir af selum og líka nokkrar af mörgæsum og svo er mikið líf í sjónum, hvalir og selir á sundi og fuglar að steypa sér eftir æti, þannig að það er ótalmargt áhugavert sem fyrir augu ber.

Safn Lockroy var áður bresk rannsóknarstöð á Gourdier-eyju en er nú safn á sumrin.
Hann nefnir Lemaire-sundið. „Sundið er talin ein glæsilegsta siglingaleið í heimi. Það er mjög þröngt, sums staðar ekki nema tvær, þrjár skipsbreiddir og nærri lóðrétt fjöll beggja vegna rísa í yfir 1.000 metra hæð. Svo eru rannsóknastöðvar þarna sem eru mannaðar ólíkum þjóðum og ein eða tvær eru heimsóttar í svona ferðum.“

innan um borgarísjaka Lagnaðarís og borgarísjakar gera siglinguna vandasama.
Íslendingarnir voru við Suðurskautslandið seinni hluta janúar og aðeins fram í febrúar. Ari Trausti segir staðviðrasamt þar á þeim tíma. „Við fengum nokkra fína, sólríka daga en líka smá snjómuggu og éljagang, hitastigið var frá einni til tveimur mínusgráðum upp í sex til sjö í plús. Tanginn er neðan við heimskautsbaug en ekki nálægt sjálfum suðurpólnum því landið er svo hrikalega stórt.“

Livingstone-eyjaMörgæsirnar virðast ekki síður hafa gaman af heimsókninni en gestirnir. Mynd/Luis Turi
Til Alaska næst

En hvaðan var lagt upp í siglinguna?

„Við þurftum að komast til Buenos Aries og fórum gegnum London. Frá Buenos Aries flugum við til syðsta bæjar heims, Ushuaia, sem er á Eldlandi, eyjar sem skiptist milli Síle og Argentínu. Við vorum Argentínumegin og sigldum þaðan, um tveggja sólarhringa ferð yfir Drake-sundið milli meginlandanna.“

Gentoo-mörgæsir „Góðan daginn, hér búum við!“
Hugmyndin er að fara í hina áttina á þessu ári og sigla til Alaska í ágúst, að sögn Ara Trausta. „Það er hin hliðin á peningnum,“ eins og hann orðar það. „Við verðum á stærra skipi en því sem við vorum á við Suðurskaustslandið og það verða engar gúmmíbátasiglingar því þarna eru hafnir og bæir og það verður kastað akkerum eða lagst að bryggju til að skoða sig um. Eftir beint flug til Vancouver verður siglt til bæjar sem heitir Seaward og er í Alaska norðarlega, þaðan verður farið í járnbrautarlest til Anchorage og þaðan fljúgum við heim. Þetta verður aðeins þægilegri ferð en hin. Bændaferðir sjá um hana líka.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.