Gagnrýni

Takk fyrir ótrúlegt listaverk, Björk

Björn Teitsson skrifar
Björk gaf nýlega út plötuna Vulnicura.
Björk gaf nýlega út plötuna Vulnicura.
Vulnicura - Björk

SmekkleysaÞessi janúarmánuður hefur verið fullkomlega glataður. Það hefur verið hvasst, dimmt og kalt – óveður að meðaltali þrisvar í viku. Það er alls ekki í lagi. En nú, vegna alvarlegasta lekamáls ársins 2015, hingað til hið minnsta, höfum við fengið hlýjan andblæ sem yljar sálinni. Takk, Björk.

Þetta hafa reyndar verið erfiðir dagar, allt frá því að Vulnicura var gefin út á veraldarvefnum á fimmtudag. Það hefur verið skrifað svo mikið um þetta listaverk, á svo skömmum tíma, að það er vart nokkru við bætandi. Og hvernig á að dæma Björk?

Það hefur engin ein manneskja gert jafn mikið fyrir íslenskt þjóðarbú… ekki aðeins menningarlega, heldur efnahagslega. Í alvöru, þið kvótakóngar, hneigið ykkur fyrir gjaldeyristekjunum sem þessi kona hefur skapað. Úr engu – nema tilfinningum og hugviti.

En. Í öllu falli. Að þessu sögðu… Í þetta sinn má kaupa allt þetta „hæp“. Vulnicura er ótrúlegt listaverk.

Bandaríska sálfræðingnum Carl Rogers er eignuð tilvitnunin „what is most personal is most universal“. Á hún vel við um Vulnicura þar sem Björk leggur list sína undir, líf sitt undir, lífið fyrir listina, listina fyrir lífið.

Það er furðuleg tilviljun að í sömu viku átti ein besta plata poppsögunnar 40 ára afmæli, Blood on the Tracks með Bob Dylan, sem er nákvæmlega eins. Listamaður að leggja sjálfan sig á borðið eftir sálræna krísu, þótt hljóðheimur þeirra tveggja sé vissulega nokkuð ólíkur.

Þessir mögnuðu listamenn eiga það sameiginlegt að hafa gengið í gegnum sambandsslit og upplifað alla þá eymd og ömurleika sem þeim fylgir. Þessum tilfinningarússíbana, sem er í senn eitt elsta og viðkvæmasta yrkisefni mannkynssögunnar, er sannarlega komið til skila í tónlist og textum Vulnicura – og rúmlega það.

Allt frá fyrsta lagi plötunnar, Stonemikler, eru áheyrendur teknir í sónískt ferðalag strengjaútsetninga sem skera inn að beini, rödd Bjarkar eins og alltaf – sterk en um leið brothætt – aldrei hefur hún notið sín betur en nú. Stundum er erfitt að greina á milli hvað það er sem veldur mestu hughrifunum, röddin, textarnir eða undurfallegar strengjaútsetningarnar.

Tónlistin er í fullkomnu jafnvægi við yrkisefnið, einhvers konar „falleg, skítug óreiða“. Enginn elskar jafn mikið og sá sem hefur misst elskhuga sinn… og ó, það er svo sárt að viðurkenna tapið. „Ef til vill rankar hann við sér,“ segir Björk. Kannski man hann, kannski man hún. Saga snertinganna, sem allar eru svo ljóslifandi þegar þær vantar. Allar, samanþjappaðar í eitt augnablik. Þetta er svo fallegt að því er vart hægt að lýsa.

Eitt er þess virði að taka fram: Frá sjónarhóli poppsins er Vulnicura líklega aðgengilegasta verk Bjarkar síðan Vespertine. Sálfræðingurinn Rogers hafði greinilega á réttu að standa. Ekki að verk Bjarkar á síðastliðnum áratug hafi verið langt undir pari.

Á einhvern hátt má jafnvel líta á síðasta áratug sem einhvers konar æfingabúðir fyrir Vulnicura, öll þessi leit, öll þessi æfing, að borga sig. Sem er reyndar fáránlegt að segja um Björk.

Samstarfsfólk Bjarkar er vandlega valið, upptökustjórarnir Arca og The Haxan Cloak eiga sinn þátt í hljóðheimi plötunnar þó það læðist að manni sá grunur að Björk hafi meira og minna verið með alla sína fingur á lofti alls staðar. Þetta er, eftir allt saman, hennar líf sem er dúndrað fram. Dúndrað, öskrað, hvíslað.

Þetta er tilfinningarússíbani sem fáir hafa túlkað á fallegri og einlægari hátt.

Niðurstaða: Vulnicura byrjar sterkt og heldur dampi allan tímann. Þetta er hvorki meira né minna en tímamótaverk, lykilverk á ferli eins magnaðasta listamanns á jörðinni.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.