Innlent

Bærinn beri kostnað vegna leka á spítala

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Gert var við hús Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða í þeirri trú að frárennsli væri komið í lag, segir forstjórinn.
Gert var við hús Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða í þeirri trú að frárennsli væri komið í lag, segir forstjórinn. Fréttablaðið/Pjetur
„Það er ósk stofnunarinnar og reyndar lágmarkskrafa að Ísafjarðarbær sjái til þess að frárennsli bæjarins sé undir það búið að taka við asahláku, hárri sjávarstöðu eða úrhellisrigningu,“ segir Þröstur Óskarsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, í bréfi til bæjarráðs.

Með bréfi Þrastar fylgir reikningur upp á 280.754 krónur sem Slökkvilið Ísafjarðarbæjar gerði sjúkrahúsinu vegna aðstoðar þegar leki kom að kjallara spítalans milli jóla og nýárs.

„Er hann endursendur hér með,“ segir Þröstur um reikninginn sem hann telur bæinn eiga að bera kostnað af. Vatn komist ekki frá húsinu þrátt fyrir ræsi utanhúss og eigi því greiða leið inn í bygginguna. Þröstur segir ríkið hafa lagt í umfangsmiklar endurbætur á byggingu heilbrigðisstofnunarinnar fyrir fáum árum, helst vegna þess að jarðhæðin hafi legið undir skemmdum vegna flóða utan frá og upp úr ræsum. Menn hafi talið að búið væri að koma í veg fyrir slíkan vanda.

„Umsjónarmenn og eigendur fasteigna geta ekki búið við þetta ástand óbreytt því það kallar á gríðarlega vinnu, kostnað og hættu á að eignir verði fyrir stórtjóni,“ segir Þröstur í bréfi sínu.

Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri segir málið í skoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×