Innlent

Ellefu ára grænlenskur herramaður klossmátaði Hrafn

Jakob Bjarnar skrifar
Hrafn, eða Tulugaq, floginn til Grænlands yfir páska og sannarlega ekki í fyrsta skipti.
Hrafn, eða Tulugaq, floginn til Grænlands yfir páska og sannarlega ekki í fyrsta skipti.
Í gær hófst skákhátíð Hróksins í Ittoqqortoormiit, afskekktasta þorpi Grænlands en þar búa liðlega 400 manns. Stendur hátíðin yfir alla páskana en með forseta Hróksins, Hrafni Jökulssyni í för er Jón Grétar Magnússon.

Vísir heyrði í Hrafni, sem reyndar heitir Tulugaq á Grænlensku, á austur-grænlensku: Qaardulu, í gærkvöldi og lét hann vel af sér segir með ólíkindum skemmtilegt að vappa um 70. breiddargráðu og gegna þessum ágætu nöfnum.

„Hér í Scoresby-sundi er í raun höfuðvígi Hróksins – öll börnin kunna að tefla eftir árlegar hátíðir í áratug. Og mörg af börnunum hafa komið til Íslands að læra sund og kynnast íslensku samfélagi. Í dag tefldi ég fjöltefli í boði vina okkar hjá Tele-Post, sem gaf öllum börnunum glaðning, og þurfti svo sannarlega að hafa mig allan við. Tilkynnist með stolti að einn 11 ára herramaður klossmátaði mig.“

Engum er það sérstakt ánægjuefni að tapa skák, Hrafn er þar sannarlega engin undantekning en að þessu sinni tók hann tapinu svona líka vel. Hrókurinn hefur heimsótt Ittoqqortormiit um hverja páska í áratug, og er skákkunnátta hvergi jafn almenn á Grænlandi og þetta sýnir það og sannar.

Meistaramótið í dag

Hrókurinn byrjaði landnám skáklistarinnar á Grænlandi árið 2003 og nú stendur þrettánda starfsár félagsins á Grænlandi yfir.„Markmið okkar er ekki bara að útbreiða skáklistina, sem er holl og uppbyggileg tómstundaiðja fyrir börn sem hefur góð áhrif á námsárangur. Við viljum auka og efla samskipti þjóðanna á sem flestum sviðum og lítum svo á að Íslendingar sé allra þjóða heppnastir með nágranna,“ segir Hrafn. Og bætir því við glaður að á ýmsum sviðum sjáist merki um aukin samskipti þjóðanna og telur að því beri að fagna.

Í dag verður haldið stórmót um meistaratign bæjarins, þar sem öll börnin fá páskaegg frá Bónus og fleiri vinninga. Á laugardag verður Norlandair-mótið haldið og þar verða vinningar frá prjónahópi Rauða krossins og íslenskum fyrirtækjum, auk þess sem öll börn fá glaðning frá Nóa Sírús. Á mánudag verður svo haldinn „Dagur vináttu Íslands og Grænlands“.

Gleðin að leiðarljósi

Samhliða skákhátíðinni er haldinn myndasamkeppni Hróksins og Pennans, þar sem börnin í bænum eru beðin um að draga upp myndir úr sínu daglega lífi. Hróksmenn mættu til bæjarins með myndir sem 5 ára stúlkur í Leikskólanum Öskju teiknuðu fyrir börnin í Ittoqqortoormiit og hafa þær vakið mikla athygli í bænum.

Að sögn Hrafns er yfirskrift 13. starfsárs Hróksins á Grænlandi: Gleðin að leiðarljósi, og sannarlega bera myndirnar sem Hrafn sendi Vísi þess merki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×