Innlent

„Ekki mitt hjartans mál að flugvöllur verði í Vatnsmýri“

Sveinn Arnarsson skrifar
Bjarni var gestur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri á hádegisfundi í dag.
Bjarni var gestur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri á hádegisfundi í dag. vísir/pjetur
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir það ekki vera hans hjartans mál að Reykjavíkurflugvöllur verði staðsettur í Vatnsmýrinni. Hans vegna gæti flugvöllurinn alveg eins verið staðsettur annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kom fram í máli ráðherrans á opnum fundi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í hádeginu í dag.

Þingmenn og ráðherrar hafa nýtt kjördæmaviku alþingis til að hitta sitt fólk um allt land. Fjármálaráðherrann nýtti daginn í dag á Húsavík, Akureyri og í Fjallabyggð til að ræða við sína stuðningsmenn. Um eitt hundarð manns sóttu fund Sjálfstæðisflokksins á Akureyri þar sem fjármálaráðherrann talað um þingstörf og svaraði fyrirspurnum flokksmanna.

Umræða um flugvallarmál var fyrirferðarmikil á fundinum, bæði innanlandsflug, vera flugvallar í Vatnsmýri sem og að fá tryggt millilandaflug um Akureyrarflugvöll.

Í umræðum um flugvöll í Vatnsmýri sagði Bjarni flugvöllinn í Vatnsmýri ekki vera að fara í náinni framtíð þrátt fyrir að framkvæmdir væru hafnar á svæðinu og þriðja flugbrautin yrði tekin úr notkun. „Fyrir mér er það ekkert hjartans mál að flugvöllurinn sé í Vatnsmýri eða einhversstaðar annars staðar í Reykjavík. Hinsvegar hafa þeir sem vilja flugvöllinn burt ekki sýnt fram á betri staðsetningu en Vatnsmýri. Það er í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar að flugvöllurinn eigi að vera í Reykjavík. Hann er ekkert að fara neitt, það er bara meirihlutinn í Reykjavík sem er að berjast fyrir einhverju öðru og gera það ekki með okkar stuðningi. Ég sé ekki að völlurinn sé að fara í náinni framtíð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×