Innlent

Segja að fangar fái ekki þá hjálp sem þeir þurfi

Kostnaður við hvern fanga í fangelsi hér á landi er um níu milljónir króna á ári. fréttablaðið/gva
Kostnaður við hvern fanga í fangelsi hér á landi er um níu milljónir króna á ári. fréttablaðið/gva vísir/gva
Sálfræðingar Fangelsismálastofnunar telja að tvöfalda þyrfti fjölda starfsmanna sem veita meðferðarúrræði til þess að ná utan um vanda fanga. Ógerlegt sé að sinna með sómasamlegum hætti þeim mikla fjölda fanga sem þurfi á sálfræðimeðferð að halda.

„Það er talað um að sálfræðingur sé ekki með fleiri en fimmtán skjólstæðinga með fjölþættan vanda,“ segir Sólveig Fríða Kjærnested, sálfræðingur Fangelsismálastofnunar.

Alls hafa um 600 manns, sem sitja í fangelsum, eru á reynslulausn eða sinna samfélagsþjónustu, aðgang að tveimur sálfræðingum og tveimur félagsráðgjöfum Fangelsismálastofnunar.

Sólveig Fríða Kjærnested
Í svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra við fyrirspurn Páls Vals Björnssonar, þingmanns Bjartrar framtíðar, kom fram að 60 prósent fanga ættu við vímuefnavanda að stríða og 75 prósent þeirra hafi skimast fyrir athyglisbresti og ofvirkni. 

„Slíkir einstaklingar þyrftu eitt til tvö viðtöl í viku en við náum ekki alltaf að anna því,“ segir Sólveig.

Þá hefur helmingur fanga skimast fyrir ofvirkni og athyglisbresti og þriðjungur fanga sýnt slík einkenni.

Sólveig segir að sálfræðingar og félagsráðgjafar heimsæki Litla-Hraun einu sinni til tvisvar í viku auk þess sem reynt sé að sinna föngum á reynslulausn. „Það gerir það að verkum að við erum ekki að fara á Kvíabryggju og Akureyri,“ segir Sólveig. 

Anna Kristín Newton
Anna Kristín Newton, hinn sálfræðingur stofnunarinnar, telur að um 70 prósent fanga stofnunarinnar þyrftu á hjálp sálfræðinga og félagsráðgjafa að halda. Þá bendir hún á að í nágrannalöndum séu starfsmenn sem sinna meðferðarúrræðum mun fleiri en þó séu þeir ekki endilega fleiri á hvern fanga. Þeir nái því að sinna einstaklingum betur en hér á landi.

Kostnaður ríkisins við hvern fanga sem situr í fangelsi hér á landi er 24.500 krónur á dag eða um níu milljónir króna á ári. Sólveig bendir á að kostnaður við fjögur stöðugildi til viðbótar væri 30 til 34 milljónir á ári. Skili bætt meðferðarúrræði því að fjórir einstaklingar verði ekki dæmdir í fangelsi á ný árlega mun fjölgun starfsmanna því borga sig, fyrir utan kostnaðinn sem hlýst af afbrotunum sjálfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×