Innlent

Álverð fallið um 13,5 prósent frá því í maí

Ingvar Haraldss skrifar
álverið í Straumsvík Þriðjungur tekna Landsvirkjunar er tengdur álverði.mynd/birgir ísleifur
álverið í Straumsvík Þriðjungur tekna Landsvirkjunar er tengdur álverði.mynd/birgir ísleifur
Ketill Sigurjónsson
Álverð hefur fallið um 13,5 prósent frá því í byrjun maí og hefur aðeins einu sinni verið lægra frá árinu 2009. Tonnið af áli kostar nú um 1.710 dollara en var um 1.980 dollarar í byrjun maí.

Ketill Sigurjónsson, sem heldur úti Orkublogginu, segir þrjár ástæður fyrir fallandi álverði. „Það er dauflegt efnahagslíf á Vesturlöndum, minnkandi hagvöxtur í Kína sem hefur leitt til aukins útflutnings frá áliðnaðinum og miklar birgðir af áli í Evrópu og Bandaríkjunum. Þetta þrennt hlýtur að halda verðinu niðri eða koma í veg fyrir að það rjúki upp,“ segir Ketill.





Pétur Blöndal
Álverð hefur verið að leita niður síðustu fjögur ár en verð á tonni af áli fór hæst nálægt 2.800 dollurum í maí árið 2011.

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, segir álframleiðendur lítið velta sér upp úr skammtímasveiflum í áli.

Langtímaspár geri ráð fyrir að eftirspurn eftir áli muni aukast um sex prósent á ári næstu árin. „Það er ástæða til hóflegrar bjartsýni þegar menn horfa á þann eftirspurnarvöxt sem er í kortunum, ef marka má spár greiningaraðila,“ segir Pétur. 

Haldist álverð lágt næstu misseri mun það draga úr tekjum Landsvirkjunar en 31 prósent af tekjum fyrirtækisins í fyrra voru tengdar álverði sem eru tæplega 18 milljarðar króna miðað við núverandi gengi dollarsins. Það hlutfall hefur þó lækkað úr 51 prósenti frá árinu 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×