Innlent

Barnið er ekki tryggt nema fyrir örorku eða dauða

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Foreldrar á Selfossi eru mjög ósátt við þær tryggingar sem dagforeldrar í Sveitarfélaginu Árborg eru með eftir að tæplega tveggja ára dóttir þeirra brenndist illa. Svörin sem þau fá er að barnið sé ekki tryggt nema fyrir örorku eða dauða.

Guðrún Birna Sveinbjörnsdóttir verður tveggja ára í haust. Hún var hjá dagforeldrum í vetur en 20. febrúar gerðist slysið, hún náði að toga pott af hellu, sem var sjóðandi heitur og fékk hluta af vatninu yfir sig og hlaut djúpan annars stigs bruna á 15 prósentum líkamans.

„Hún var ekki gróinn fyrr en um miðjan maí, þannig að það er mjög hægur bati, en þetta er náttúrulega stórt svæði, en fyrir utan það hefur þetta gengið framar vonum,“ segir Bryndís Erlingsdóttir, móðir Guðrúnar Birnu.

Foreldrar Guðrúnar Birnu eru mjög ósátt með hversu lélegar tryggingar dagforeldra eru.

„Það er býsna mikið af hlutum sem betur hefðu mátt fara. Fyrir það fyrsta yfirumsjón með dagforeldrum, það örlar eitthvað lítið á henni. Svo bara tryggingamál, þessi trygging sem dagforeldrar eru með hér tryggir bara örorku eða dauða.“

En hvað niðurstöðu vill Bryndís sjá í málinu?

„Ég vill bara að barnið mitt fái einhverjar bætur, ég veit að þetta á eftir að draga einhvern dilk á eftir sér fyrir hana. Ég veit það alveg að peningar eru það ekki sem bjarga öllum, það í rauninni lagar ekki mikið fyrir hana en það er þá allavega eitthvað“, segir Bryndís.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar segir dagforeldra sjálfstæða atvinnurekendur og því sé ekki við Árborg að sakast í þessu máli.

„Þeir þurfa að leggja fram yfirlýsingu um að þeir hafi slysatryggingu þegar þeir fá leyfi til að starfa sem slíkir, sveitarfélagið gefur út slík leyfi og það er eitt af skilyrðunum að hafa þessa tryggingu,“ segir Ásta og bætir við. „Að sjálfsögðu geta dagforeldrar keypt sér víðtækari tryggingar ef þeir það kjósa og síðan er inn í heimilistryggingum hjá flestum einhverskonar slysatryggingar.

En er við sveitarfélagið að sakast?

„Sveitarfélagið getur ekki gert strangari kröfur en tilgreindar eru í reglugerðinni,“ segir framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×