Viðskipti innlent

Kapp og eignastýring fara illa saman

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Viðtal við Björgólf Thor Björgólfsson var birt í viðskiptahluta helgarútgáfu Sunday Times um síðustu helgi.
Viðtal við Björgólf Thor Björgólfsson var birt í viðskiptahluta helgarútgáfu Sunday Times um síðustu helgi. Fréttablaðið/ÓKÁ
Andrúmsloft mikillar samkeppni ríkti fyrir hrun milli þeirra sem hér á landi höfðu fengið viðurnefnið „útrásarvíkingar“ að því er fram kemur í viðtali Sunday Times í Bretlandi við Björgólf Thor Björgólfsson fjárfesti.

Rætt var við Björgólf í fyrsta blaði ársins hjá Sunday Times í tilefni af sjálfsævisögu hans sem út kom fyrir jól. Þar lýsir hann því hvernig auðæfi hans hurfu í einni svipan í októberbyrjun 2008 og gerir upp við aðdraganda þess tíma.

Sunday Times hefur eftir honum hvernig ungir íslenskir athafnamenn hafi þá verið á kafi í harðri samkeppni, drifinni áfram af karlhormónum, um hver gæti aflað mestra fjármuna á sem stystum tíma.

„Ég horfði á sjálfan mig í 400. sæti á auðmannalista Sunday Times og hugsaði: Ég vil vera númer 300. Þetta gerðum við allir,“ segir Björgólfur í viðtalinu. Þá hafi ekki bætt úr skák að allir hafi þessir athafnamenn þekkst.

„Við erum allir fæddir milli 1966 og 1970. Flestir gengum við í sama skóla og vorum bornir saman hver við annan.“ Þeir hafi verið ungir og fullir sjálfstrausts og lagt hart að sér bæði í samkeppni og í skemmtun.

„Og það er ekki góð uppskrift þegar kemur að því að stýra og stemma af miklar eignir.“

Sem fyrr lýsir Björgólfur því sem sínum stærstu mistökum að fjárfesta í Landsbankanum á Íslandi. „Ég ætlaði að gera bankann alþjóðlegan og selja hann svo.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×