Innlent

Fimmtán mánuðir í fangelsi fyrir þjófnað

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hinn dæmdi er 37 ára gamall.
Hinn dæmdi er 37 ára gamall. Vísir/Pjetur
37 ára gamall karlmaður var á dögunum dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir þjófnað. Maðurinn á að baki yfir tuttugu ára brotaferil og þótti í ljósi þess ekki ástæða til að skilorðsbinda dóminn að neinu leyti.

Var maðurinn meðal annars dæmdur fyrir innbrot í húsnæði á Akureyri í maí í fyrra þar sem hann stal meðal annars myndavél, Mac-tölvu, saumavél, posavél, tveimur borvélum og ýmsu smádóti. Nokkrum dögum síðar stal hann svo tólf ambúlum af lyfjum úr neyðarvagni á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri.

Í síðari hluta ákærunnar er greint frá fjórum innbrotum sömu nóttina, í október 2014, þar sem hann stal meðal annars verkfærum að verðmæti á aðra milljón króna.

Maðurinn játaði brot sín skýlaust auk þess sem fram kom fyrir dómi að megnið af þýfinu hefði fundist og verið komið aftur í hendur eigenda sinna. Hins vegar þótti í ljósi afar langrar brotasögu mannsins, sem nær aftur til ársins 1993 eða þegar maðurinn var aðeins fimmtán ára gamall, við hæfi að dæma hann til fimmtán mánaða fangelsisvistar.

Dóminn í heild sinni má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×