Innlent

Vekja athygli á einhverfu

viktoría hermannsdóttir skrifar
Grunur kviknaði á leikskólanum vegna þess að Sveinn Gauti sýndi nokkur einkenni sem gætu átt við einhverfu. Þórhildur viðurkennir að það hafi verið áfall að fá þessa greiningu.
Grunur kviknaði á leikskólanum vegna þess að Sveinn Gauti sýndi nokkur einkenni sem gætu átt við einhverfu. Þórhildur viðurkennir að það hafi verið áfall að fá þessa greiningu. Fréttablaðið/Valli
Blár apríl, vitundarvakning um einhverfu, er nú haldinn í annað sinn af Styrktarfélagi barna með einhverfu.

„Félagið var stofnað fyrir tveimur árum, við tókum fyrsta árið til að undirbúa og í fyrra héldum við í fyrsta skipi Bláan apríl, þá var aðalmálið að koma þessu málefni á framfæri. Það kom okkur á óvart hvað þetta gekk vel í fyrra. Yfir allt árið söfnuðum við fé sem gerði okkur kleift að kaupa sérkennslugögn fyrir alla grunnskóla í landinu fyrir fjórar og hálfa milljón króna,“ segir Ragnhildur Ágústsdóttir formaður stjórnar félagsins. Ragnhildur á tvo einhverfa drengi, 5 og 8 ára.

Þórhildur Birgisdóttir er einnig í stjórn félagsins en sonur hennar, Sveinn Gauti sjö ára, greindist með einhverfu í kringum tveggja ára aldur.

„Það var leikskólinn sem kveikti á perunni, við erum ótrúlega þakklát þeim fyrir að vera vel vakandi. Þetta var okkar fyrsta barn og við höfðum ekkert að miða við. Þó að ég hafi mikið verið í kringum börn þá var ég algjörlega grunlaus,“ segir Þórhildur.

Grunur kviknaði á leikskólanum vegna þess að, Sveinn Gauti, sýndi nokkur einkenni sem gætu átt við einhverfu. Þórhildur viðurkennir að það hafi verið áfall að fá þessa greiningu. „Ég held að öllum foreldrum bregði við að heyra svona. Þetta var sannarlega áfall og okkur brá mjög enda vissum við lítið um einhverfu.“

Hún segir þau hafa verið þakklát fyrir hversu fljótt hann greindist. Hann fékk svokallaða forgreiningu og því var hægt að fara vinna strax með þau atriði sem þurfti aðleggja áherslu á.

Í dag er Sveinn Gauti í Álfhólsskóla í Kópavogi í almennum bekk en einnig einhverfudeild. Að sögn Þórhildar gengur honum vel að fóta sig. Auk þess er hann að æfa handbolta og tennis.

„Það er áskorun fyrir hann að vera í handboltanum. Honum finnst það gaman en getur verið tapsár. Það er algengt hjá börnum með einhverfu, að eiga erfitt með að tapa eða skipta á milli. Við höfum unnið með það síðan hann var lítill.“

Þórhildur segir mikilvægt að fólk sé vakandi fyrir einkennum svo að hægt sé að greina einhverfuna sem fyrst. „Það eru svo margir sem fara í afneitun. Það skiptir miklu máli að fólk loki ekki á þetta og það sé greint eins snemma og hægt er. Þannig að ef það vaknar grunur þá að bregðast við því.“

Í ár er safnað fyrir námskeiðahaldi, annars vegar til þess að geta haldið námskeið fyrir foreldra nýlega greindra barna á einhverfurófi og félagsfærninámskeið fyrir einhverf börn. Fjölmargar byggingar verða lýstar upp í bláu í tilefni af átakinu sem nær hápunkti 10. apríl. Þá eru allir hvattir til þess að klæðast bláu í tilefni dagsins. Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að hringja í 902-1010 og gefa þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×