Innlent

Strætó brotlegur við útboðslög

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Margvíslegir erfiðleikar hafa sett mark sitt á Ferðaþjónustu fatlaðra að undanförnu.
Margvíslegir erfiðleikar hafa sett mark sitt á Ferðaþjónustu fatlaðra að undanförnu. vísir/anton
Strætó bs. braut útboðslög þegar fyrirtækið samdi við Ný-Tækni vegna Ferðaþjónustu fatlaðra. Þetta er niðurstaða kærunefndar útboðsmála frá því á fimmtudag.

Ný-Tækni tók í febrúar við hlutverki Kynnisferða við svokallaðan tilfallandi akstur fyrir Ferðaþjónustu fatlaðra. Kynnisferðir óskuðu eftir að losna undan skuldbindingum sem fyrirtækið hafði gengist undir sem aðili að rammasamningi eftir útboð í fyrrasumar. Fyrirtækin þrjú sem kærðu tóku þátt í því útboði en Ný-Tækni ekki.

Kærunefndin kemst að því í úrskurði sínum að Strætó bs. sé skaðabótaskyldur gagnvart kærendunum vegna samningsins. Samningurinn var þó ekki ógiltur vegna þessara annmarka. Þá var Strætó bs. gert að greiða kærendum sameiginlega 800 þúsund krónur í málskostnað.

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður kærendanna, segir umbjóðendur sína þokkalega sátta við niðurstöðuna. „Þar sem úrskurðarnefndin telur að framsalið hafi ekki verið í samræmi við lagaskilyrði þá hefði mönnum þótt lógískt að ómerkja þetta framsal. En hins vegar er þetta staðfesting á gagnrýni á vinnubrögð Strætó og gott að fá viðurkenningu á bótaskyldu.“

Sveinn Andri segir tvennt fram undan. Annars vegar muni þeir setjast niður og semja um greiðslu skaðabóta í samræmi við niðurstöðu úrskurðanefndarinnar.

„Hins vegar þarf Strætó að fara að taka til hjá sér og skipta út þeim aðilum sem hafa haldið utan um þessa rammasamninga,“ segir Sveinn Andri. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×