Innlent

Hirtu milljónalífeyri löngu látinnar konu

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Tryggingastofnun vísar alvarlegustu bótasvikum til lögreglu með litlum árangri.
Tryggingastofnun vísar alvarlegustu bótasvikum til lögreglu með litlum árangri. Fréttablaðið/GVA
Ekki hefur verið gefin út ákæra í svikamáli þar sem aðstandendur látinnar konu þáðu ellilífeyri hennar frá Tryggingastofnun eftir andlát hennar. Stofnunin kærði bótasvikin til lögreglu árið 2011 en enn hefur ekki verið gefin út ákæra.

Konan bjó í Bandaríkjunum og aðstandendur hennar létu hjá líðast að tilkynna andlát hennar til Þjóðskrár. Þess í stað þáðu þeir ellilífeyri hennar í tíu ár. Svikin nema tugum milljóna, að minnsta kosti tuttugu og fjórum milljónum króna, eða sem nemur upphæð ellilífeyris konunnar í tíu ár.

Hafliði Þórðarson hjá auðgunarbrotadeild lögreglunnar segir annir í öðrum verkefnum og manneklu valda því að ekki hafi tekist að ljúka rannsókn málsins á styttri tíma en fjórum árum.

„Loksins er að ljúka því máli. Það er komið í meðferð saksóknara. Það er ekki búið að gefa út ákæru en ég veit til þess að það er í forgangi að klára það. Málið er auðvitað orðið alltof gamalt, það gerist hér vegna mikillar starfsmannaveltu í þessum geira rannsókna. Það var stofnað heilt embætti til að rannsaka efnahagsbrot og það hefur haft áhrif á gang mála hjá okkur. Þá hafa annir í öðrum verkefnum tafið málið.“

En er ekki hætta á að einhver hluti brotanna sé fyrndur? Hafliði segist ekki halda það. „Fyrningarfrestur er tíu ár og því er ekki hætta á að málið fyrnist.“

Við Laugaveg Rannsókn lögreglu er sögð hafa tafist vegna manneklu. Fréttablaðið/GVA
Tryggingastofnun hefur kært fimm mál til lögreglu á árunum 2011-2014 þar sem rökstuddur grunur lék á að um alvarleg bótasvik væri að ræða. Kæra stofnunarinnar vegna rangra upplýsinga frá aðstandendum greiðsluþega barst lögreglu eins og áður segir árið 2011. Þá kærði stofnunin eitt mál á árinu 2013, vegna gruns um að greiðsluþegi hefði ekki gefið réttar upplýsingar um heimilisaðstæður.

TR kærði tvö mál á árinu 2014. Annað vegna gruns um að greiðsluþegi hefði ekki gefið réttar upplýsingar um tekjur. Hitt vegna gruns um að aðili hefði ekki gefið réttar upplýsingar um feðrun barns og haft af því ávinning. Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar, vill ekki tjá sig um neitt framangreindra mála. Nýverið úrskurðaði Persónuvernd að stofnuninni væri óheimilt að þiggja nafnlausar ábendingar um bótasvik.

Ríkisendurskoðun hefur ítrekað bent á að tryggja þurfi nauðsynlegt fjármagn til Tryggingastofnunar til að sinna öflugu eftirliti með bótagreiðslum og beita fyrirbyggjandi aðgerðum til að lágmarka hættu á bótamistökum og öðrum mistökum.

Þá hefur Tryggingastofnun verið bent á lögbundið eftirlit með bótagreiðslum. Á móti hefur forstjóri bent á að styrkja þurfi lögbundnar heimildir stofnunarinnar sem hafi lítið svigrúm til rannsókna á bótasvikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×