Innlent

1.900 bifreiðar innkallaðar frá áramótum

sveinn arnarsson skrifar
Gripið er inn í áður en slys eiga sér stað eða bílar verði fyrir frekara tjóni.
Gripið er inn í áður en slys eiga sér stað eða bílar verði fyrir frekara tjóni. Fréttablaðið/GVA
Alls hafa 1.900 bifreiðar á landinu verið innkallaðar af framleiðendum frá áramótum í alls 15 innköllunum. Er þessi fjöldi óvenju mikill að mati Neytendastofu. Fjöldi innkallaðra bifreiða hefur vaxið síðustu ár en tímabilið frá áramótum slær öllu við.

Ekki er þó um það að ræða að gallar í bifreiðum séu að verða algengari en tíðkast hefur. Guðrún Lárusdóttir, gæðastjóri stjórnsýslusviðs Neytendastofu, segir neytendur nú í auknum mæli njóta vafans ef líkur á göllum er annars vegar. „Framleiðendur eru varari um sig en áður. Við höfum ekki séð viðlíka fjölda innkallaðra bifreiða áður, en það er alveg ljóst að tilkynningum hefur farið fjölgandi undanfarin ár,“ segir Guðrún.

Þetta þýði í raun að mati Guðrúnar að fyrirbyggjandi aðgerðir sem þessar komi neytendum vel. „Í sjálfu sér er þetta mjög gott mál fyrir neytendur því þarna er gripið inn í áður en slys gerast eða bifreiðar verði fyrir frekari tjóni af völdum galla.“

Neytendastofa heldur skrá yfir tilkynningar af þessu tagi. Stofnunin sjálf hefur aðeins einu sinni á síðustu árum óskað eftir innköllun bifreiða.

Ef upp kemur um líklega galla í bifreiðum er eigendum þeirra mjög fljótt tilkynnt um það og þeim boðið að koma bílunum til viðgerðar sér að kostnaðarlausu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×