„Ég er alltaf klár í að taka víti ef ég verð beðinn um það. Guðjón Valur er góð vítaskytta og það er erfitt að fara fram úr honum," sagði Arnór.
Arnór Þór hefur staðið sig vel í þýsku úrvalsdeildinni í vetur og hann hefur verið duglegur að skora. En er ekkert mál að standa á punktinum og taka víti? „Jú auðvitað en það er góð tilfinning að fara á punktinn og skora.
Arnór segir að sér hafi gengið ágætlega á æfingunum í Katar en hann tognaði lítillega aftan í læri í leiknum við Slóvena og þurfti að láta sjúkraþjálfarana vinna fyrir kaupinu sínu en hann er búinn að vera með á tveimur æfingum í Katar og gengið vel.
Arnór er nú með á sínu þriðja stórmóti og segir að reynslan af hinum tveimur skipti miklu máli.
„Ég held að ég sé meira tilbúinn í þetta mót en fyrir hin mótin. Ég er rosalega spenntur og finn fyrir sömu tilfinningu hjá félögum mínum, menn vilja bara byrja mótið sem fyrst“.
Liðið æfir oftast tvisvar á dag en hvað gera leikmennirnir þess á milli?
„Borða, við erum eiginlega alltaf að borða. Við fórum í göngutúra og kíkjum í „mollið“ og skoðum hvað er í boði. Doha er æðisleg borg og allt til alls hérna,“ sagði Arnór.
Það má sjá allt viðtal Arnars Björnssonar við Arnór hér fyrir neðan.