Handbolti

Sverre: Áður fyrr fór ég þetta á ákefðinni en núna meira á reynslunni

Arnar Björnsson í Katar skrifar
Sverre Jakobsson.
Sverre Jakobsson. Vísir/Ernir
Varnarjaxlinn Sverre Jakobsson tekur núna þátt í sínu síðasta stórmóti, hann segir að hlutverk hans í liðinu sé að sjá til þess að boltinn fari sem sjaldnast í mark mótherjanna.  Þegar hann er spurður að því hvort hann sé undir það búinn að vera annað hvort lofaður í hástert eða rakkaður niður svarar hann játandi.   

„Er þetta ekki alltaf svona ár eftir ár í janúar, maður þarf að búa sig undir þetta bæði andlega og líkamlega en er orðinn vanur þessu“.  

Í aðdraganda mótsins í Katar hefur Aron þjálfari lagt áherslu á varnarleikinn, hvernig líst Sverre á þær áherslur?  

„Bara nokkuð vel, við erum á góðri leik með varnarleikinn.  Þetta er framtíðarsýn þjálfarans og verður væntanlega varnarleikur okkar á næstu árum.  Það þýðir að ég fæ ekki að taka þátt í þessu eins mikið og ég vildi.  En það er gott að koma með aukavopn í varnarleikinn og vera ekki eingöngu að spila 6-0 vörn.  Við með flotta leikmenn sem skilja þetta vel og margir þeirra spila þennan varnarleik með sínum félagsliðum.

Sverrir hefur oft verið rekinn útaf í leikjum með landsliðinu en hann segir það ekki halda fyrir sér vöku.  

„Ég hugsa aldrei um það í leikjum hvort ég fái tveggja mínútna brottvísun.  Áður fyrr var maður að fara þetta á ákefðinni en núna meira á reynslunni," segir Sverre.

Þegar Sverre er beðinn um samanburð á þessu liði og á öðrum mótum segir hann að slíkur samanburður sé erfiður.  

„Þessi hópur er búinn að vera saman í ein 10 ár, reynslan er orðin mikil og sumir hverjir fara brátt að hætta að spila með liðinu eins og ég.  En mér finnst liðið alltaf gott fyrir öll stórmót“, segir þessi brosmildi risi sem er búinn að standa lengi í slagnum en leggur landsliðskóna á hilluna eftir mótið í Katar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×