Handbolti

Björgvin Páll: Geðsýkin í gang og íslenska hjartað á réttum stað

Arnar Björnsson í Katar skrifar
„Íslenska geðveikin gerir andstæðinginn aðeins hræddari við okkur“, segir Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska handboltalandsliðsins á HM í Katar.

Markverðirnir Björgvin Páll Gústafsson og Aron Rafn Eðvarðsson þurfa að vera í stuði annað kvöld ætli Íslendingar sér að vinna Svía.  Björgvin Páll segist til í slaginn.  

„Ég er tilbúinn og síðustu æfingar hafa gengið vel.  Æfingaleikirnir í byrjun janúar voru svona og svona en við erum vel stemmdir.  Við förum í alla leiki til að vinna, 2 stig annað kvöld er markmiðið og það skiptir ekki máli hvort við verjum 10 eða 20 skot, bara að við vinnum leikinn.  Markmiðið er að komast upp úr riðlinum og því er leikurinn við Svía lykilleikur.  Þeir eru kannski betri en við á pappírunum en við þurfum bara að snúa við úrslitunum úr síðasta æfingaleik.  Sigur í leiknum gerir framhaldið mjög spennandi“.  

Björgvin segist vera búinn að stúdera sænsku skytturnar.  „Kim Andersson er einn besti handboltamaður heims og hann er sá leikmaður sem við þurfum að varast hvað mest.  Svíar eiga marga góða leikmenn en úrslitin velta mest á okkur sjálfum," segir Björgvin Páll.

„Ef geðsýkin er í gangi og menn eru með íslenska hjartað  og tilbúnir að lemja frá sér þá getur allt gerst.  Við spilum „agressífa“ vörn og erum með þessa íslensku geðveiki og hún gerir liðin kannski aðeins hræddari við okkur.  Ef kveikt er á henni og gaurarnir frammi eru eins og þeir eru oftast þá fæ ég nokkra fría bolta til að blaka fram“, segir Björgvin Páll og telur niður fyrir fyrsta leikinn annað kvöld.

Ekki missa af neinu sem gerist á HM. Fylgdu Vísi á Twitter, Facebook og Snapchat (notendanafn: sport365).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×