Innlent

„Þessir menn koma aftur út í samfélagið, það má ekki horfa framhjá því“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Margrét Frímannsdóttir, fangelsisstjóri á Litla Hrauni og Sogni.
Margrét Frímannsdóttir, fangelsisstjóri á Litla Hrauni og Sogni. Vísir/GVA
Margrét Frímannsdóttir hefur verið forstöðumaður á Litla Hrauni í 7 ár. Fylgst var með degi í lífi fangelsisstjórans í Íslandi í dag í gærkvöldi.

Áður en Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, skipaði Margréti sem forstöðumann á Hrauninu árið 2008 hafði hún setið á þingi í 20 ár.

„Ég var mjög glöð með það því þetta var svolítið eins og að vera komin heim. Pabbi vann hér í mörg ár, ég fylgdist alltaf með þessum rekstri, líka allan tímann sem ég var á þingi.“

Úr einu karlasamfélagi í annað

Hún segist þó halda að það hafi verið erfitt fyrir starfsfólkið að fá konu sem fangelsisstjóra og segist sjálf hafa verið bullandi stressuð fyrsta vinnudaginn.  

„Ég get alveg viðurkennt það núna. Þetta er karlasamfélag. Fyrsta árið var þetta erfitt. Það voru svo margir búnir að starfa hér í tuttugu til þrjátíu ár í karlasamfélaginu með karlaviðhorfin. Það tók svolítið langan tíma en þetta var samt ekkert sem varð til þess að ég vildi gefast upp,“  segir Margrét.

En hvernig tóku fangarnir henni?

„Ég býst við að þeim hafi innst inni fundist að þarna væri bara komin lítil kona sem væri tiltölulega auðvelt að ráða við,“ segir Margrét. Það hafi hins vegar ekki verið auðvelt að ráða við hana enda hafði hún þjálfun úr karlasamfélaginu í pólitíkinni.

Erfiðast að taka ákvarðanir sem varða líf einstaklingsins

Að loknum morgunfundi með varðstjórum í fangelsinu fer Margrét yfir í hús 1 þar sem fangar í gæsluvarðhaldi dvelja. Þar eru einangrunarklefar.

„Hérna inni, ef að það er algjör einangrun, með fjölmiðlabanni og öllu, þá eru menn bara með bækur sem að við sköffum, DVD-diska og svo geta þeir fengið skriffæri. En þeir eru ekki með sitt dót að neinu leyti.“

Margrét segir allt vera skemmtilegt við starfið en það erfiðasta sé að taka ákvarðanir sem varða líf einstaklingsins; loka inni, einangra eða eitthvað slíkt. Hún segir starfið vissulega taka sinn toll, aðallega andlega, en á móti koma gleðistundirnar í starfinu sem séu fleiri heldur en hitt.

Þá sé alltaf gott að finna jákvætt viðhorf í garð fangelsisins, bæði í samfélaginu almennt sem og á þing.

„Við erum að ræða núna að auka menntun og möguleika, verknám og reyna að ná í vinnu. Maður er svolítið sorgmæddur yfir viðhorfi sem maður mætir mjög oft í samfélaginu en ég held að það sé að breytast og við þurfum að kynna það sem við erum að gera. Þessir menn hafa auðvitað allir brotið af sér en þeir koma aftur út í samfélagið, það má ekki horfa framhjá því.“

Mamman á Hrauninu

Þegar fangarnir á Litla Hrauni voru beðnir að lýsa Margréti kom alltaf sama svarið; „mamma“.

„Þetta er mamma okkar allra sem skammar mann en er samt góð. Áður en Magga Frímanns tók við var bara neysla hérna. Það var alltaf eitthvað til hérna og aldrei þurrkur. Þetta var eins og að vera í einangruðum neysluheimi,“ segir einn fanginn.

Í spilaranum hér að neðan má sjá þátt Íslands í dag í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×