Innlent

Verjendur rukka fyrir það sem út af stendur

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Tímagjald verjenda er nú 16.500 krónur en var áður 10.000 krónur. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður segir um að ræða ásættanlega réttarbót.
Tímagjald verjenda er nú 16.500 krónur en var áður 10.000 krónur. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður segir um að ræða ásættanlega réttarbót. Mynd/Valli
Dómstólaráð hefur hækkað greiðslur til verjenda í sakamálum með nýjum viðmiðunarreglum. Tímagjald verjenda er nú 16.500 krónur en var áður 10.000. Það er hækkun upp á 65 prósent. Málsvarnarlaunin skulu þó aldrei vera lægri en 78.000 krónur en áður var lágmarksfjárhæðin 46.700.

Lágmarksþóknun verjenda og réttargæslumanna fyrir að mæta við fyrirtöku hjá lögreglu eða dómara hækkar úr 20.000 kr. í 52.000 kr., sem er um 160 prósenta hækkun. Standi fyrirtaka lengur en í tvær klukkustundir greiðist hver byrjuð klukkustund fram yfir það með 16.500 krónum samkvæmt viðmiðunarreglum dómstólaráðs.

Fréttastofa ræddi við Ingimar Ingimarsson, framkvæmdastjóra Lögmannafélagsins, sem segir um að ræða löngu tímabæra leiðréttingu, launin hafi verið óbreytt í tíu ár og í raun lengur.

„Þetta er löngu tímabær leiðrétting,“ segir Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður, sem hefur starfað mikið sem verjandi í sakamálum.

Vilhjálmur segir óskastöðuna auðvitað þá að verjendur fengju greitt fyrir tíma sinn samkvæmt sinni eigin gjaldskrá. „En ég tel að þessi réttarbót sem hefur orðið núna sé mjög ásættanleg, þetta hefur færst mun nær raunverulegu tímagjaldi heldur en það var.“

Vilhjálmur segir það töluvert algengt meðal lögmanna sem sinna verjendastörfum að rukka skjólstæðinga sína um mismuninn á tímagjaldi sínu og dæmdum málsvarnarlaunum. Algengt tímagjald verjenda er í kringum 25 þúsund krónur.

„Ég held að það sé að verða æ algengara. Það er bæði vegna þess að gjaldið var lágt og svo eru auðvitað sérfræðingar í rekstri sakamála rétt eins og í rekstri einkamála og það er mjög eðlilegt að það sé svipað eða sambærilegt tímagjald hvort heldur sem verið er að reka sakamál eða einkamál. Þar að auki eru hagsmunir skjólstæðinga í sakamálum oft gríðar-legir og þá ef til vill eðlilegt að það sé rukkað fullt gjald,“ segir Vilhjálmur.

Greiðslur fyrir dæmigert refsimál
  • Þeir verjendur í sakamálum sem Fréttablaðið ráðfærði sig við sögðu hefðbundið sakamál, sem ekki er of flókið, taka í kringum 25-30 klukkustundir allt í allt.

  • Oft væru mætingar til lögreglu tvær, sem stæðu yfir í um tvær klukkustundir hvor. Allt í allt fari um 5-10 klukkustundir í málið þegar það er á rannsóknarstigi.

  • Sé ákært í málinu bætast við 10-15 klukkustundir, en þar er innifalið mætingar í fyrirtökur fyrir dómi, undirbúningur aðalmeðferðar, málflutningur, dómsuppsaga og svo fleira eins og viðtöl, símtöl, tölvupóstsendingar og svo framvegis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×