Innlent

Pólskur uppruninn eina ástæða frelsissviptingar

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
 Maðurinn sat saklaus í gæsluvarðhaldi í þrjár vikur og var á fimmtudag dæmdar 800 þúsund krónur í bætur vegna þess. 	Fréttablaðið/Heiða
Maðurinn sat saklaus í gæsluvarðhaldi í þrjár vikur og var á fimmtudag dæmdar 800 þúsund krónur í bætur vegna þess. Fréttablaðið/Heiða
Lögfræðingur manns sem sat saklaus í þrjár vikur í gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að fíkniefnamisferli, segir manninn ekki hafa nein tengsl við þá sem stóðu að smyglinu nema þá að vera frá sama upprunalandi og þeir, Póllandi.

Á fimmtudag féll dómur í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem íslenska ríkinu er gert að greiða manninum 800 þúsund krónur í skaðabætur

„Þetta er eina tengingin. Þessir menn voru handteknir og fá þarna einhver skilaboð með þessu heimilisfangi,“ segir Svanhvít Yrsa Árnadóttir lögmaður mannsins.



Heimilisfangið sem mennirnir fengu skilaboð um að mæta á var fjölbýlishús þar sem 35 eru skráðir til heimilis, meðal annars maðurinn og fjölskylda hans. „Hann og hans fjölskylda eru þau einu af pólskum uppruna sem bjuggu í þessari blokk. Það er engin tenging þarna á milli nema þetta heimilisfang,“ segir Svanhvít.

Svanhvít Yrsa Árnadóttir Mynd/Styrmir Kári Erwinsson
Þann 15. apríl 2012 voru þrír pólskir menn handteknir grunaðir um innflutning á fíkniefnum til landsins. Í farangri mannanna fundust tæp níu kíló af amfetamíni og sögðu mennirnir að þeir hafi verið á leið með fíkniefnin á það heimilisfang sem maðurinn býr á samt hinum í fjölbýlishúsinu. Lögreglan kom á heimili mannsins sama dag, braut upp hurð að íbúð hans og handtók hann og eiginkonu hans skömmu síðar. Þriggja ára dóttir þeirra var á staðnum og varð eftir með vinkonu hjónanna í íbúðinni.

Maðurinn var látinn sæta gæsluvarðhaldi frá 15. apríl til 3, maí 2012 og var í farbanni frá 14. maí sama ár. Maðurinn neitaði sök frá upphafi og mennirnir sem tengdust innflutningnum sögðu einnig að hann tengdist ekki málinu.



Í dómnum kemur fram að málið hafi haft talsverð áhrif á manninn. Hann hafi orðið fyrir verulegum miska vegna þeirra frelsisviptingar sem hann hafi þurft að þola vegna ásakananna. Erfitt sé að gera sér í hugarlund þá sálarangist sem einstaklingur þurfi að ganga í gegnum sem sitji saklaus í gæsluvarðhaldi og einangrun.

Hann telji sig einnig hafa orðið fyrir mannorðsmissi vegna málsins, fjallað hafi verið um málið í fjölmiðlum og nágrannar hans orðið vitni að lögregluaðgerð þar sem vopnað lið lögreglumanna hafi farið inn á heimili hans.

Eftir þetta hafi tortryggni gætt í hans garð af hálfu nágranna hans og samferðarmanna. Hann lýsti því fyrir dómnum að þessi reynsla hefði haft slæm áhrif á samband hans við börn sín og hefði fyllt son hans sem nú er 14 ára gamall, tortryggni í garð föður síns vegna þess að hann hafi setið í fangelsi. Viðmót nágranna gagnvart þeim hefði breyst og það hafi átt þátt í því að fjölskyldan hafi flutt í annað húsnæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×