Innlent

Leita lækningamáttar í augnkúlu karfa

Svavar Hávarðarson skrifar
Rannveig Björnsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri og fagstjóri hjá Matís.
Rannveig Björnsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri og fagstjóri hjá Matís.
Gamalt húsráð íslenskra sjómanna varð kveikja að verkefni Matís og Háskólans á Akureyri þar sem reynt er að varpa ljósi á hvort slím úr karfaauga hafi eftirsóknarverða lífvirkni. Markmiðið er að nýta efni sem úr augnslíminu koma í ýmsan iðnað, svo sem í snyrtivörur og fæðubótarefni.

Rannveig Björnsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri og fagstjóri hjá Matís, segir að þrátt fyrir að allir sjómenn viti af græðandi virkni vökvans sem úr karfaauganu kemur þá hafi efnasamsetning hans og eiginleikar aldrei verið skoðaðir.

Fyrstu niðurstöður segir Rannveig vera í raun margþættar. Andoxunarvirkni fannst í augnslími karfans, en þó ágæti hennar sé mögulega umdeilt þá sé ljóst að nýtingarmöguleikarnir geta verið margvíslegir.

Að troða sárum fingri í auga karfans hefur sannast að hafi græðandi áhrif.
„Andoxunarvirkni er mjög áhugaverð í snyrtivöruiðnaði, sem styður eitt meginmarkmið rannsóknarinnar. Við vitum auk þess hvað er af próteinum, fitu og vökva í augnslíminu. Einnig hvort eitthvað tapist við mismunandi verkun eða vinnslu; frystingu eða þurrkun við mismunandi aðstæður. 

Bakteríuhamlandi áhrif mældust ekki í augnvökvanum,“ segir Rannveig og því sé næsta takmark að leita til dæmis bólgueyðandi áhrifa og að sama skapi verkjastillandi og græðandi áhrifa.

„Við höfum hugsað okkur að skoða líka önnur fiskaugu, því fersk karfaaugu eru ekki auðfengin, en hvort ferskleiki skiptir hér öllu máli vitum við ekki fyrir víst. Mig langar að skoða augun í laxi og bleikju,“ segir Rannveig og bætir við að eiginleikar augnvökva karfans séu mjög sérstakir, en hann er sérstaklega seigfljótandi og erfitt að ná innvolsi augnanna í sundur.

„Því væri fróðlegt að vita hvort vökvinn er ekki gott íblöndunarefni, og mér varð hugsað til allra þessara náttúrusnyrtivara þar sem grunnurinn er keyptur erlendis. Takist þetta eru tvær flugur slegnar í einu höggi; eiginleikar fást frá grunninum til viðbótar við þá sem upphaflega er sóst eftir,“ segir Rannveig sem þegar hefur fundið fyrir áhuga sérfræðinga í þróun snyrtivara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×