Innlent

Íslenskur nemi hannar byggingarefni fyrir íbúa á Gaza-svæðinu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Corto Jabali er nemi í vöruhönnun við LHÍ. Hann langar til þess að aðstoða íbúa Gaza-svæðisins og leysa húsnæðisvanda þeirra.
Corto Jabali er nemi í vöruhönnun við LHÍ. Hann langar til þess að aðstoða íbúa Gaza-svæðisins og leysa húsnæðisvanda þeirra. Vísir/Corto/Getty
Corto Jabali, íslenskur nemi í vöruhönnun í LHÍ sem ættaður er frá Palestínu, hefur hannað byggingarefni sem hægt er að framleiða  á Gazasvæðinu. Þannig gerir hann tilraun til þess að komast í kringum yfirstandandi innflutningsbann á byggingarvörum til svæðisins. „Eftir stríðið árið 2014 urðu margir heimilislausir og það á eftir að byggja hús fyrir það fólk,“ útskýrir Corto. Fólkið þarf húsnæði, það er það sem er að.“



Síðastliðið sumar ríkti sjö vikna stríð á Gaza-svæðinu eins og kunnugt er.  „Sumarið 2014 voru þúsundir heimila lögð í rúst þegar Ísrael réðst á Gaza-svæðið, fjölmargir Gazabúar stóðu uppi heimilislausir eða urðu að búa í rústum,“ segir Corto um verkefnið. Ísraelar létu rigna loftskeytum yfir svæðinu í þeim tilgangi að stöðva flugskeytaárásir frá Gaza yfir til Ísraels. Í átökunum létust alls 2.350 Palestínumenn og tæplega ellefu þúsund særðust. Þrátt fyrir að vopnahlé hafi haldist síðan í ágúst á síðastliðnu ári er gífurleg eyðilegging á svæðinu. Margir íbúar Gaza búa í húsarústum og hafa fregnir borist af því að fólk látist úr kulda.


Eftir þau gífurlegu átök sem voru á svæðinu þurfa íbúar Gaza-svæðisins að grípa til ýmissa ráða til þess að eiga þak yfir höfuðið.Mynd/Getty
„Ég er ekkert að reyna að vera pólitískur, það er ekki ætlunin,“ útskýrir Corto. „Ég er að reyna að leysa þetta vandamál.“ Corto skoðaði lista yfir þau efni sem má ekki flytja inn til landsins og eftir nokkurra vikna vinnu komst hann niður á ákveðna efnablöndu sem hægt væri að blanda á svæðinu. Efnið samanstendur úr natrón salti, viðarösku, kaólín leir og ferskvatni. „Ég fann þetta efni sem heitir geopolymer, það efni var víst notað í Egyptalandi þannig að ég gat reiknað með því að þau efni væru kannski til á Gaza-svæðinu.“ Hann segir að mikill skortur sé á ferskvatni á Gaza-svæðinu og því hafi hann prófað sig áfram með sjó. 



Ætlar sjálfur út til Palestínu með byggingarefnið

Útkoman er lokaverkefni hans í vöruhönnun í LHÍ. Múrsteinn sem hann kallar Gazabrick. Corto vill fara út til Palestínu með verkefnið og þannig hjálpa íbúum svæðisins með beinum hætti. Þangað hefur hann aldrei komið en segir að sökum vensla sinna ætti ekki að vera erfitt að komast í samband við fólk úti. „Ég er með nokkra kontakta þarna, ég þarf að koma mér í samband við þau. Næsta skrefið er síðan að koma mér út.“ Hann vill þó sannreyna áður að hægt sé að byggja úr efninu og að sá strúktúr standi. Því gerir hann ráð fyrir að koma sér í samband við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og byggingarverkfræðinga áður en hann heldur út. „Það verður eflaust ár þangað til það kemur til greina. Ég vil sanna þetta áður en fólk fer að hrópa húrra.“ 


Verkefnið verður til sýnis í útskriftarsýningu nema við Listaháskólann í Hafnarhúsinu. Sýningin opnar klukkan tvö næstkomandi laugardag. 

„Þetta hefur verið mér mjög kært málefni,“ segir Corto Jabali. „Með þessu verkefni er ætlun mín að reyna að leysa að hluta mannúðarvandamál með því að nýta getu mína sem hönnuður.“

Uppfært kl. 15.09: Í fyrri útgáfu fréttarinnar var sagt frá því að sýningin yrði á föstudaginn næstkomandi, tímasetningunni hefur verið breytt og hún verður á laugardaginn næstkomandi. 


Hér má sjá útkomuna auk efnanna sem Corto notaði í byggingarefnið. Þetta verður til sýnis í Hafnarhúsinu og sýningin opnar á laugardag klukkan tvö.Mynd/Corto

Tengdar fréttir

Gífurlegt mannfall á Gaza í dag

Hús eins af leiðtogum Hamas sprengt í loft upp en hann slapp. Um hundrað manns fallir í dag þar af að minnsta kosti ellefu börn. Vopnahlés tillögu hafnað bæði af Ísrael og Hamas.

Staða mála á Gaza

Árið 2014 reyndist íbúum á Gaza afar erfitt. Enn eitt stríðið skall á. Sprengjuregn Ísraels stóð yfir í 51 dag, úr lofti, frá sjó og af landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×