Innlent

Fara fram á afsökunarbeiðni frá Krabbameinsfélaginu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Forsvarsmenn Liv ehf. segjast hafa dregist inn í óvægna ófrægingarherferð Krabbameinsfélags Íslands gegn Bláa naglanum. Þær Halla og Lára Liv Ólafsdætur vísa til greinar Kristjáns Oddssonar, yfirlæknis Krabbameinsfélagsins sem birtist í DV þann 17. mars, þar sem hann „beinir spjótum sínum að Bergljótu Halldórsdóttur lífefnafræðingi, sem er faglegur ráðgjafi hjá fyrirtækinu,“ þetta kemur fram í tilkynningu frá Höllu og Láru.

Greinina má einnig sjá hér á síðu Krabbameinsfélagsins.

Í tilkynningunni má segir að Kristján væni Bergljótu um að nota lögverndað starfsheiti stéttar sinnar til að gefa almenningi misvísandi upplýsingar.

„Hann ræðst af óskiljanlegum ástæðum á æru Bergljótar með dylgjum um óheiðarleika og dregur hreinlega í efa hæfi hennar sem reynslumikils lífefnafræðings. Finna má í það minnsta fjórar ærumeiðandi staðhæfingar í  garð Bergljótar í greininni.“

Þær óska þess að Krabbameinsfélagið, stjórn þess og Kristján, biðji Bergljótu opinberlega afsökunar á „meiðandi ummælum í hennar garð“ og að greinin verði fjarlægð af vef Krabbameinsfélagsins.

Tilkynningu Höllu og Láru í heild sinni má sjá hér að neðan.

Forsvarsmenn Liv ehf., umboðsaðila Biomarica ( EZ Detect heimaprófa) hafa dregist inn í óvægna ófrægingarherferð Krabbameinsfélags Íslands gegn Bláa naglanum og í grein Kristjáns Oddssonar, yfirlæknis Krabbameinsfélags Íslands sem birtist í DV þann 17.3.2014  beinir hann  spjótum sínum að Bergljótu Halldórsdóttur lífefnafræðingi, sem er faglegur ráðgjafi hjá fyrirtækinu.

Í greininni vænir Kristján Bergljótu um að nota lögverndað starfsheiti stéttar sinnar til að gefa almenningi misvísandi upplýsingar. Hann ræðst af óskiljanlegum ástæðum á æru Bergljótar með dylgjum um óheiðarleika og dregur hreinlega í efa hæfi hennar sem reynslumikils lífefnafræðings. Finna má í það minnsta fjórar ærumeiðandi staðhæfingar í  garð Bergljótar í greininni. Kristján leggur henni einnig orð í munn, tekur úr samhengi athugasemdir og gerir lítið úr ævistarfi sem hún hefur unnið af  að heilindum og óþreytandi áhuga og metnaði.  Starf  Bergljótar sem lífeindafræðingur var ekki bara starf fyrir henni, heldur einnig helsta áhugamál í yfir 40 ár. Þrotlaus vinna og áhugi varð til þess að árið 2002 varð  hún fyrst Íslendinga til að hljóta vísindaverðlaun Alþjóðasamtaka meinatækna fyrir rannsóknir sínar á blóði, þvagi, saur og öðrum líkamsvökvum.

Ummæli Kristjáns Oddssonar eru afar meiðandi og til þess fallin að grafa undan trúverðugleika Bergljótar. Ekki er nóg með að þessar vafasömu staðhæfingar hafi birst opinberlega í DV, heldur er þessi  grein Kristjáns aðgengileg á vef Krabbameinsfélags Íslands.

Yfirlæknirinn gefur m.a. í skyn að Bergljót ´lífeindafræðingurinn` gefi almenningi misvísandi upplýsingar í skjóli lögverndaðs starfheiti stéttar sinnar ásamt því að leyna því að fjölskylda hennar sé umboðsaðili fyrir EZ Detect á Ísland.i  Slíkar dylgjur eru  með ólíkindum og sæma ekki virðulegri stofnun eins og Krabbameinsfélagi Íslands. Það skal tekið fram að hvorki Bergljót né Liv ehf. (umboðsaðili EZ Detect heimaprófa) hafa stundað óheiðarlega viðskiptahætti og hafa engan fjárhagslegan ávinning af framlagi Bláa naglans til forvarna/vakningar á ristilkrabbameini.  EZ Detect heimaprófin hafa verið í dreifingu á Íslandi í 5 fimm ár.   Bergljót hefur verið ötull talsmaður þeirra og komið fram í fjölmiðlum og víðar.  Engar misvísandi upplýsingar hafa komið frá talsmönnum EZ Detect á Íslandi varðandi gagnsemi prófsins. Tilbúningi og róg vísum við til föðurhúsanna sem því miður er Krabbameinsfélag Íslands.

F.h. Liv ehf. óskum við þess að Krabbameinsfélagið, stjórn þess og Kristján Oddsson yfirlæknir, biðji Bergljótu Halldórsdóttur, lífeindafræðing opinberlega afsökunar á meiðandi ummælum í hennar garð ásamt því að fjarlægja meiðandi grein af vef Krabbameinsfélags Íslands.

Halla og Lára Liv Ólafsdætur, forsvarsmenn Liv ehf.

Það skal einnig tekið fram að Liv ehf. styður starf Bláa naglans af heilum hug. Með óeigingjörnu framlagi og gríðarlegri vinnu hafa samtökin á undanförnum árum lagt sitt af mörkum til að vekja athygli á krabbameini karla, að okkar mati með frábærum árangri. Þetta framlag ber að virða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×