Innlent

Söfnunarátak ABC formlega hafið

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Frá Bessastöðum í dag.
Frá Bessastöðum í dag.
Árlegt söfnunarátak ABC barnahjálpar hófst formlega í dag. Söfnunin mun standa yfir til 19. apríl næstkomandi en þetta er í átjánda sinn sem hún fer fram.

Safnað verður fyrir öðrum áfanga byggingu skóla og heimavistar fyrir ABC starfið í Nairobi í Kenýa. Grunnur að fyrstu hæð var lagður eftir söfnunina Börn hjálpa börnum árið 2013 og var fyrsta hæðin byggð í fyrra fyrir söfnunarféð með stuðningi frá utanríkisráðuneytinu. Í ár verður safnað fyrir annarri hæð sömu skólabyggingar.

Í fyrra söfnuðust rúmlega átta milljónir króna en þá var söfnunarfénu varið í að byggja heimavist fyrir fátækar stúlkur í Machike í Pakistan.

Forseti Íslands hóf söfnunina formlega á Bessastöðum í dag og voru 33 nemendur úr fimmta bekk í Fossvogsskóla viðstaddir. Átakið er unnið í samstarfi við grunnskóla landsins. Börnum er úthlutað götum í sínu skólahverfi þar sem þau ganga í hús tvö og tvö saman og safna í söfnunarbauka.

Þeim sem vilja leggja söfnuninni lið er bent á eftirfarandi reikningsnúmer:

515-14-110000

Kt: 690688-1589




Fleiri fréttir

Sjá meira


×