Innlent

Viðræðum í tvígang hætt án niðurstöðu

sveinn arnarsson skrifar
Verði framkvæmdin að veruleika gæti það þýtt um 120 ný störf. Umhverfismat liggur ekki fyrir.
Verði framkvæmdin að veruleika gæti það þýtt um 120 ný störf. Umhverfismat liggur ekki fyrir.
Faxaflóahafnir, Hafnasamlag Norðurlands, Hörgársveit og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar hafa ekki séð forsendur fyrir því að fyrirtækið TS-Shipping geti sett upp starfsemi á þeirra svæðum með það fyrir augum að rífa niður skip í brotajárn. Nú er Dalvíkurbyggð í viðræðum við fyrirtækið.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson
Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir viðræður við fyrirtækið ekki hafa farið langt. „Við ræddum aldrei beint við fyrirtækið heldur lögfræðing þess. Þetta fyrirtæki var að okkar mati svolítið höfuðlaust og við sáum ekki forsendur til að halda áfram viðræðum,“ segir Gísli.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar (AFE), virðist hafa sömu sögu að segja af fyrirtækinu.

AFE leiddi viðræður við TS-Shipping að beiðni Hafnasamlags Norðurlands og Hörgársveitar árið 2012 og gerði jafnframt athugun á fyrirtækinu.

Gísli Gíslason
„Þessar þreifingar áttu sér stað um nokkurra mánaða skeið og fólu í sér fundarhöld sveitar- og hafnarstjórna við TS-Shipping. Eftir nokkra vinnu var undirrituð viljayfirlýsing af hálfu yfirvalda hér, en hún var aldrei undirrituð af hálfu fyrirtækisins,“ segir Þorvaldur Lúðvík. Einnig var ekki á hreinu hvernig fjármögnun yrði háttað.

„Á haustmánuðum varð það því niðurstaða okkar að verkefnið væri ekki komið nægilega langt til þess að ástæða væri til að taka það lengra. Fjármögnun og áætlanir voru um margt á huldu og heyrðum við ekki frekar frá þeim á þeim tímapunkti,“ segir Þorvaldur Lúðvík.

Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, segir bæjarfélagið verða að snúa vörn í sókn. „Þessar viðræður okkar við fyrirtækið eru ekki komnar langt á veg. Dalvíkurbyggð er í ákveðinni varnarbaráttu og við þurfum að efla atvinnulíf á svæðinu“ segir Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×