Innlent

Bréfberi sinnir nú þjónustunni

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Póstkassi
Póstkassi
Póstbíll kemur til með að sinna þjónustu við íbúa á afgreiðslusvæðum Íslandspósts við Vík í Mýrdal og á Kirkjubæjarklaustri.

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur samþykkt beiðnir Póstsins um heimild til að loka póstafgreiðslum á þessum stöðum.

Mat PFS er að þjónustan sem Íslandspóstur ætlar að veita í stað póstafgreiðslu fullnægi gæðakröfum laga um póstþjónustu, sem og þeim skyldum sem hvíla á fyrirtækinu sem alþjónustuveitanda.

„Engin breyting er boðuð af hálfu Íslandspósts varðandi útburð póstsendinga á svæðinu. Breytingin felst eingöngu í þeim þætti starfseminnar er varðar móttöku sendinga á sérstökum afgreiðslustað,“ segir í umfjöllun PFS.

„Bréfberi/bílstjóri mun nú taka á móti póstsendingum frá íbúum og fyrirtækjum á þessum stöðum með sama hætti og hann hefur gert hjá íbúum utan þéttbýlis um áraraðir.“

Bent er á að íbúar geti hringt í bréfbera/bílstjóra og pantað þjónustu á viðverutíma starfsmannsins, auk þess sem póstkassi verði á báðum stöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×