Innlent

Lögregla rannsakar skotvopn í hnífstungumáli

Bjarki Ármannsson skrifar
Maður sem grunaður er um aðild að hnífstunguárás í Reykjavík í síðasta mánuði hefur verið látinn laus úr gæsluvarðhaldi.
Maður sem grunaður er um aðild að hnífstunguárás í Reykjavík í síðasta mánuði hefur verið látinn laus úr gæsluvarðhaldi.
Hæstiréttur hefur fellt úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir einum þriggja manna sem grunaðir eru um sérstaklega alvarlega líkamsárás í Reykjavík aðfaranótt 26. febrúar. Maðurinn var upphaflega látinn sæta gæsluvarðhaldi til 6. mars síðastliðins vegna rannsóknarhagsmuna. Í dómi Hæstaréttar, sem birtur var í dag, segir að ekki sé talinn sterkur grunur á að maðurinn hafi framið brot sem geti varðað tíu ára fangelsisdóm.

Fundust tveir blóðugir í íbúð fórnarlambsins

Í greinargerð lögreglu segir að aðfaranótt 26. febrúar hafi verið óskað eftir aðstoð vegna hnífstungu. Í tilkynningunni kom fram að á staðnum væru menn vopnaðir skotvopnum.

Lögregla kom að blóðugum manni sitjandi í sófa á vettvangi og yfir honum stóð annar maður með hníf. Sá sagðist aðeins vera að hjálpa og að þeir sem hefðu ráðist á manninn væru þegar farnir. Fórnarlambið sagði hinsvegar manninn sem stóð yfir sér hafa ráðist á sig.

Maðurinn með hnífinn var handtekinn ásamt bróður sínum, sem fannst bak við hurð í annarri íbúð. Báðir voru þeir blóðugir, að því er segir í greinargerðinni, en sá sem fannst bak við hurðina er sá sem hefur nú verið látinn laus úr gæsluvarðhaldi.

Þriðji maðurinn var svo handtekinn á heimili sínu eftir að lögreglu bárust upplýsingar frá nokkrum aðilum um að sá maður hafi verið viðriðinn árásina.  Hann neitar sök og segist hafa verið hitt bræðurna fyrir tilviljun skammt  frá vettvangi árásarinnar.

Annar bræðranna, sá sem nú er látinn laus, sagði hinsvegar við skýrslutöku að þriðji maðurinn hafi farið með þeim bræðrum í íbúð fórnarlambsins.  Þeir hafi allir verið á leið þangað til að jafna sakirnar fyrir aðra líkamsárás sem hafi átt sér stað nokkrum dögum fyrr.

Skotvopn til rannsóknar hjá lögreglu

Mennirnir fóru fyrst herbergisvillt og spörkuðu upp hurð hjá konu í húsnæðinu. Þaðan eiga þeir að hafa farið í rétta íbúð þar sem tveir menn búa, ráðist á þá báða og skorið annan með hnífi. Mennirnir sem ráðist var á segja bræðurna auk þriðja mannsins hafa verið vopnaða riffli.

Bræðurnir neita því báðir að hafa verið með skotvopn á staðnum. Hins vegar segir í greinargerð að riffli hafi verið skilað inn til skotvopnaskrár lögreglu þann 2. mars sem komi saman við lýsingar á vopninu sem brotaþolar lýsa. Nú vinni lögregla að því að rannsaka byssuna og leita lífsýna á henni.

Í greinargerð kemur einnig fram að lögregla telur hinn kærða liggja undir sterkum grun um að hafa með skipulögðum hætti framið brot sem geti varðað allt að sextán ára fangelsi. Jafnframt sé það ljóst að kærði sé hættulegur umhverfi sínu og að það myndi særa réttarvitund almennings gengi hann laus. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×