Innlent

„Spiluðum í happadrætti og töpuðum“

Hjörtur Hjartarson skrifar
Menn vonuðust eftir happdrættisvinningi meðal annars með miklum fjárfestingum í Helguvík, segir formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar. Sá vinningur skilaði sér ekki og nú situr bæjarfélagið í súpunni og getur ekki borgað skuldir sínar.

Reykjanesbær sendi í morgun tilkynningu til Kauphallarinnar þess efnis að ef ekki næst samkomulag við lánadrottna um niðurfellingu skulda kemur til greiðslufalls hjá sveitarfélaginu. Reykjanesbær skuldar um 40 milljarða króna eða um 240 prósent af tekjum sínum sem gerir bæjarfélagið að því skuldsettasta á landinu.

„Staðan er grafalvarleg en við höfum sett saman áætlun, gerðum það í haust undir nafninu, Sóknin og hún er í mörgum liðum. Einn liður í þeirri áætlun er að semja við kröfuhafa og reyna fá niðurfellingu á skuldum sveitarfélagsins. Það er ljóst að ef áætlun okkar á að ganga eftir þá þarf allt að ganga upp,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ
Fjármögnun sveitarfélagsins er tryggð út yfirstandandi ár en vonir standa til að viðræðum við kröfuhafa verði lokið fyrir páska. Kjartan segir að ekki standi til að auka álögur á bæjarbúa, þeim aðgerðum sé lokið og ekki á bætandi. Vandi Reykjanesbæjar er ekki nýr af nálinni en skuldir sveitarfélagsins fjórfölduðust á árunum 2002 til 2013.

„Við vorum að vonast eftir því að vinna í happadrætti með miklum fjárfestingum bæði í bæjarfélaginu og í Helguvík. Það gekk því miður ekki eftir og nú sitjum við uppi með það miklar skuldir sem við getum ekki greitt af,“ segir Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar.

Innanríkisráðherra vildi ekki veita viðtal vegna málsins í dag en sagðist þó fylgjast náið með stöðunni. Samkvæmt sveitastjórnarlögum getur innanríkisráðuneytið svipt sveitastjórnir fjárforræði og skipað þeim fjárhaldsstjórn ef þurfa þykir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×