Innlent

Minni Alzheimerssjúklinga batnar við reglulegar líkamsæfingar

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Minnið batnar og einbeitingin eykst þegar sjúklingar með Alzheimer gera reglulega líkamsæfingar.
Minnið batnar og einbeitingin eykst þegar sjúklingar með Alzheimer gera reglulega líkamsæfingar. NORDICPHOTOS/GETTY
Þegar sjúklingar sem eru með byrjunarstig Alzheimerssjúkdómsins taka reglulega á í líkamsrækt batnar minni þeirra og einbeitingin eykst. Þetta eru niðurstöður nýrrar danskrar rannsóknar sem greint er frá á vef danska ríkisútvarpsins. Haft er eftir Sten Hasselbalch, stjórnanda rannsóknarinnar sem gerð var á vegum danska ríkisspítalans, að stífar líkamsæfingar auki líkamlega vellíðan og hafi jákvæð áhrif á andlega færni. Viðmiðunarhópur sem ekki tók þátt í æfingunum sýndi ekki batamerki.

Þátttakendur í rannsókninni gerðu þol- og styrktaræfingar þrisvar í viku. Að sögn Hasselbalch var mestur árangur sjáanlegur þegar gerðar voru stífar æfingar. Hins vegar geti vel verið að teygjur og annars konar æfingar hafi áhrif. Þátttakendur gerðu æfingar saman í litlum hópum. Félagsskapurinn kann að hafa átt þátt í aukinni vellíðan Alzheimerssjúklinganna, að því er Hasselbalch greinir frá.

Rannsóknin stóð yfir í þrjú ár og er sú fyrsta sem sýnir fram á gagnsemi hreyfingar hjá sjúklingum með Alzheimer á byrjunarstigi, að því er bent er á á vef danska ríkisútvarpsins. Vísindamennirnir vita hins vegar enn ekki hvernig æfingarnar hjálpa. „Við vitum ekki hvort það er bara vegna betri líðanar almennt eða hvort eitthvað gerist í heilanum. Við ætlum að rannsaka það,“ segir Hasselbalch.

Svava Aradóttir, framkvæmdastjóri Félags áhugafólks og aðstandenda Alzheimerssjúklinga, segir fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á gagnsemi hreyfingar sem forvarnar. „Það hefur að undanförnu verið lögð mikil áhersla á hreyfingu í þessu skyni.“

Að sögn Svövu er markviss andleg og líkamleg þjálfun í dagþjálfun fyrir Alzheimerssjúklinga en slík þjálfun er á átta stöðum á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er hins vegar spurning um hvernig við náum til allra hinna sem ekki koma í dagþjálfun en þurfa á hreyfingu að halda. Fólk með Alzheimer getur átt í erfiðleikum með að skipuleggja sjálft líkamsæfingar með öðrum. Sjúklingarnir kunna auk þess að þurfa aðstoð til að komast á milli staða.“

Í Finnlandi er samstarf á milli íþróttafélaga og Alzheimersfélaga, að sögn Svövu. „Slíku samstarfi þyrfti að koma á laggirnar hér. En þá komum við enn og aftur að því sama, nefnilega skorti á fjármagni og starfsmönnum.“

Stjórnandi rannsóknarinnar í Danmörku mælir með því að Alzheimerssjúklingar þar hafi samband við sveitarfélagið sitt til þess að fá hjálp og stuðning til þess að stunda líkamsrækt. Hann tekur fram að þótt menn geri ekki miklu meira en að fara í göngutúr geti það haft góð áhrif. Það sé góð byrjun. Aðalatriðið sé að vera virkur yfir daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×